luxatio hugans

awakening

mánudagur, janúar 29, 2007

Hlutir sem skipta máli

Eftir gott samtal við Jóhann Vilhjálmsson á msn um hluti sem skipta máli í þessu lífi, þá hef ég komist að því að ein af stærstu mistökunum sem ég hef gert voru að fara ekki í tannlækninn frekar en lækninn. Það er miklu meira töff að útskrifast sem Cand. Odont heldur en Cand. med.
Þegar maður ber fram Cand. Odont með hæfilega miklu kokmælgi þá er eins og maður sé að mæla frönsku eða eitthvað álíka fínt. Hins vegar þegar sagt er Cand. med þá hljómar það eins og kantsteinn. Sem er ekki fínt.
Maður verður að lúkka sæmilega. Þetta snýst um það þegar allt kemur til alls.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Doddi litli ammilisbarn

Já eiginmaður minn á afmæli í dag, 28. janúar. Þegar maður er rauðhærður, landsliðsmaður á gönguskíðum og æfir sig á kirkjuorgelið full time, þá verður maður automatiskt og óumdeilanlega mjög töff. Þess vegna er það náttúrulega engin tilviljun að 28. janúar sé alþjóðlegi holdsveiki dagurinn. Á reiði guðanna sér engin takmörk?
Fyrsti til að óska Dodda til hamingju með afmælið var stimpilklukka LSH. "Sláðu inn kennitölu, til hamingju með afmælið, útstimplunin hefur verið skráð, góða helgi." Uhh takk kæra stimpilklukkukona. Ja, reyndar var Sævar Karl fyrstur, með sitt persónulega afmæliskort sem barst í vikunni. Kæri Þóroddur, til hamingju með afmælið á sunnudaginn, kveðja Sævar Karl. WTF??!! Er þetta að virka? Verða menn svo glaðir með afmælis og jólakortin að þeir versla meira?
Palli kom með marengstertu í gær sem er meter x meter og verður boðið upp á hana með leiknum í dag. Róbert vinur okkar og fyrrum nágranni af Eggertsgötunni ætlar að gefa Dodda sigur gegn Þjóðverjum í afmælisgjöf. Sjálf gaf ég honum veiðiferð með tveim rauðhærðum til viðbótar. Ég vona bara að þeir verði ekki fyrir aðkasti úti í ánni greyjin.
Ég ætla að hafa opið fyrir kveðjur til Dodda í dag.
Dúndurkveðjur úr Ármúla hressleikans.

laugardagur, janúar 27, 2007

Áhugaverði dagurinn

Í fyrradag var súper jákvæði dagurinn í Ármúla. Slíkt þarf þessa dagana þegar námsefnið er ekki alveg að vekja lífsgleðina. Þá var bannað að vera neikvæður út í námsefnið, lífið og tilveruna og fólk varð að vera jákvætt í tali þann daginn. Ég var ásökuð um kaldhæðni í jákvæðu tali mínu, en það var þvættingur. Þetta gafst svo vel að daginn eftir, í gær, var úber súper jákvæði dagurinn. Sá var einnig frábær. Í dag er svo áhugaverði dagurinn. Svoleiðis að í stað þess að segja: "Rosalega er ömurlegt hvað það er mikið ósamræmi í fyrirlestrunum og fyrirlestraskránni í erfðalæknisfræði", þá má segja: "Það er áhugavert hvað það er mikið ósamræmi í fyrirlestrunum og fyrirlestraskránni í erfðalæknisfræði". Sálrænt er mjög mikill munur á þessu tvennu. Einnig eru margir áhugaverðir fyrirlestrar í augnlæknisfræði. Mjög áhugaverðir. Eða það er áhugavert hvernig fjallað er um efnið í þeim. Mjög áhugavert.
Ohh ég finn það á mér að þessi dagur stefnir í að verða áhugaverður.

föstudagur, janúar 26, 2007

Jarðkattastemning

Hér í Ármúlanum og á Barónstíg áður, er setið og lesið við borð með skilrúmum. Á venjulegum manni sem situr á eðlilegan hátt við borðið nemur efri brún skilrúmsins við ennið. Svoleiðis að, þegar einhver kemur labbandi inn í herbergið og maður vill vita hver er að koma, þá þarf að teygja úr hálsinum til að sjá með góðu móti hver er á ferðinni. Sumir eru alveg sjúklega fyndnir, (og forvitnir) þegar þeir teygja hausana yfir skilrúmin til að sjá hver er á ferðinni. Þetta minnti mig alltaf á eitthvað dýr, þegar ég kom labbandi inn í herbergið mitt á Baró og sá alla teygðu hausana koma upp á móti mér en ég var mjög lengi að kveikja á perunni á hvaða dýr. Svo allt í einu kom það. Það eru jarðkettirnir. Þessi hræðilega fyndu dýr sem standa á afturfótunum og reigja sig í allar áttir til að standa á verðinum fyrir hjörðina.
Það er rosa jarðkattastemning hér í Ármúlanum.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Fleiri í neysluverkfalli

Á forsíðu Morgunblaðsins er fjallað um neyslubindindi sem eitthvað lið í Bandaríkjunum er búið að vera í í ár. ÁR people, við erum of sein að taka við okkur. Þetta er orðið cult þarna úti. Víkverji dagsins gerir lélegt verðmætamat landans einnig að umfjöllunarefni í dag. Mér líkar þetta. Fleiri og fleiri að taka við sér. En betur má ef duga skal. Ég hlýt að vera búin að koma inn hjá ykkur nettum aumingjahroll þegar þið borgið 17.000 krónur fyrir gallabuxur eða 15.000 krónur fyrir klippingu og lit, 450 krónur fyrir caffe latte, 1190 krónur fyrir hádegisverð, án drykkjar. Gosið á 450, ekki með áfyllingu. Þetta fór mér líka að finnast skrítið eftir að hafa verið í USA. Þar kosta drykkir með mat, í fyrsta lagi mjög lítið og í öðru lagi voru þjónarnir endalaust að fylla á glösin. Hér þarf maður að skipaleggja sopana afar gaumgæfilega ef maður vill ekki láta þurran bita standa í hálsinum á sér í miðri máltíð.
Jæja ef þið eruð ekki ennþá komin með tilfinninguna að það sé rugl að láta bjóða sér verðlagið í landinu, þá þarf ég að gera betur. Mér er hvergi nærri nærri lokið. Stay tuned.

Halló

Hver er í Denver Colorado?
Gefðu þig fram.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Fréttir af neysluverkfalli

Ég veit að landinn iðar í skinninu að vita hvað mér miðar í neysluverkfallinu. Þeir sem halda að hér hafi ekki verið alvara á ferð, fá hér snarlega leiðréttingu. Ég fór í það að fylla frystikistuna mína af fisk og kjöti. Afurðirnar voru keyptar að norðan, beint frá framleiðendum. Engar millistigsálagningar þar, né okur. Kartöflur fengum við líka í sekkjum frá Ytri-Tjörnum. Svo við getum nærst án þess að fara á hausinn. Svo er náttúrulega ágætt að allar fatakyns nauðsynjar voru keyptar á fjölskylduna í Ameríku og það mun ekki verða keypt eitt sokkapar fyrr en ég fer til Las Vegas í apríl. Svo er náttúrulega orðinn dágóður tími síðan ég hætti að lita á mér hárið og ég verð að segja að minn náttúrulegi litur er að koma mér skemmtilega á óvart. Þegar ég var í Ameríkunni þá rakst ég líka á Sjampó frá John Frieda sem heitir Sheer Blonde og á að draga fram náttúrulegar strípur. Gaman að því. En brúsann fann ég á 200 krónur stykkið í Ameríku svo ég keypti náttúrulega 6 brúsa. Enn þá meira gaman að því. Sami brúsi kostar krónur 1190 í íslenskum verslunum svo ég fékk 6 brúsa í Ameríku á verði eins hér heima. Þar sem ég er ekki búin með fyrsta brúsann frá því að ég kom heim í nóvember er ég bjartsýn á að birgðirnar endist mér þar til ég get fyllt á í Vegas. Af augabrúna og augnháralitunum er það helst að frétta að ég hef keypt mér minn eigin lit og Berglind vinkona mín setur það á mig. Svo það er engin hætta á því að konan leggist í kör og ljótleika í neysluverkfallinu. Náttúrulega strípur og bogadregnar augabrúnir eru það sem koma skal.
Svo að þið sjáið það börnin mín að það er massaniðurskurður í gangi og mér er fúlasta alvara. Og þetta er bara prinsipp mál. Maður lætur ekki ræna sig um hábjartan dag og við fulla meðvitund lengur. Það er bara ekki þannig.

Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér þetta plagg hér frá neytendasamtökunum þar sem þeir hafa tekið saman hækkanir frá heildverslunum og birgjum til verslana. Þeir eru sko byrjaðir að hækka til að tryggja það að niðurskurður virðisaukaskattsins skili sér ekki til almennings. Og auðvitað munum við sniðganga hækkaðar vörur til að sýna mönnum að fólkinu í landinu er nóg boðið. Koma svo fólk! Vakna til meðvitundar hérna!

mánudagur, janúar 22, 2007

Nei!!

HM-parið svaraði fyrir sig með föstum skotum. Jæja jæja, ekkert nema gott um það að segja. Hvað er fólk að dissa það hvernig þau kjósa að verja sinni brúðkaupsferð? Ég sit hérna við horngluggann á stofunni minni og út á milli blokkanna í Eskihlíðinni streyma unglingsstrákar í átt að Valsheimilinu. Æfingin hefur sjálfsagt frestast þar til eftir leik. Þeir hlaupa hver á móti öðrum og fagna ógurlega. Ég fæ tár í augun og finnst þetta fallegt. Já, breytt kona bloggar.

Þjóðarsorg

HM-parið hefur farið sneypuför til Þýskalands. Þjóðin situr eftir agndofa. Næst lesum við sjálfsagt um skilnað HM-parsins á forsíðum Séð og heyrt og Hér og nú undir fyrirsögninni: "HM ruglaði okkur"

LAS VEGAS

Ég er að fara til Vegas. Var ég nokkuð búin að segja frá því? Planið er að verða rík í Póker. Nei ég er að djóka. Ég er að fara á ráðstefnu. SAGES. Ég fer með Hildusi. Við ætlum að kynna ákaflega merkar niðurstöður rannsókna okkar. Það er göfugi hluti ferðarinnar. En fyrst þingið er nú haldið í Vegas þá verður maður líka að gambla pínulítið, versla pínulítið, fara á show og giftast einhverjum blindfullum í Elvis kapellunni. Hildus segist vera búin að finna show fyrir okkur að fara á. Ég veit ekki með það. Ég var meira með eitthvað Chippendales show í huga, en hitt gæti verið ágætt líka. Hvað er meira hressandi en konur á breytingarskeiði? Já það verður bloody marvelous í Vegas.

Próflestur

Nei, þú ert ekki dottinn inn á gamla færslu. Ég er kominn í próflestur. Enn og aftur. Nú er það Húð og kyn, Augnlæknisfræði og Erfðalæknisfræði. Við erum alltaf í prófum. Það líða uþb. 6 vikur á milli prófatarna og í vor verður það eins. Hnuss. Reyndar er þetta ágætt fyrirkomulag fyrir krónískt letidýr eins og mig. Heldur mér stanslaust á tánum. Óje.
Húð og kyn er dásamlegt fag. Ég þrái að verða sérfræðingur í húð og kynsjúkdómafræðum. Þá þyrfti ég aldrei framar neitt í lífinu. Þá væri lífið endanlega fullkomnað. Ég þyrfti enga veraldlega hluti til að fylla tómarúmið í hjartanu því hjartað væri alltaf stútfullt af hamingju og við það að springa úr gleði. Já þannig er nú bara það.

laugardagur, janúar 20, 2007

Áminning

Ég ætla að minna Þotulið nær og fjær á það að dagsetning Þorrablótsins er laugardagurinn 10. febrúar. Í ár munum við halda okkur við ætan mat að mestu leyti, Jóhann þarf því að verða sér úti um rolluaugu á eigin spýtur. Það verður gerð krafa um skemmtiatriði svo allir þurfa að leggja höfuðið í bleyti. Meira var það ekki í bili.

föstudagur, janúar 19, 2007

Furðufréttir

Ég heyrði ótrúlega undarlegar fréttir í morgun. Svo undarlegar að þær eru allt að því ótrúlegar. Ég heyrði að fjórir karlmenn hefðu setið í saman í 5 klst í gærkvöldi, með fullkomið pókersett við hönd, en hefðu aldrei komið sér í það að spila pókerinn. Manni er orðavant. Það er ekkert mikilvægara en pókerinn. Póker er náttúrulega bara það skemmtilegasta í heimi núna. Mest æsandi sjónvarpsefnið eru Betson mótin á Sýn. Ég bara veit ekki hvað ég á að segja næst. Ég er í alvöru orðlaus og sjokkeruð. En alltaf hress.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Eitt lítið dæmi

og jafnframt fyndið lítið dæmi um algera og gagngera viðhorfsbreytingu sem ég hef orðið fyrir. Í dag fer ég næstum daglega inn á hlaup.is
Já það er bara þannig.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Pistill Egils

í Silfrinu í dag er svo góður að ég táraðist. En að sama skapi var ég glöð að hafa póstað minni síðustu færslu í gær því annars hefði ég hljómað eins og copycat. Egill segist vona að þjóðin sjái að sér og hætti að borga. Sama og ég sagði í gær. HÆTTUM AÐ BORGA!! Við lítum á það sem veikleikamerki að hafa ekki efni á hlutunum og drögum því kortið með kæruleysissvip upp og rennum því eins og okkur muni ekki um það. Þess vegna kenni ég neytendum um verðlagið að miklu leyti. Auðvitað ganga verslunareigendur eins og langt og þeir geta til að féfletta fíflin. Og við erum fíflin. Við látum bjóða okkur þetta til að þykjast flottræflar. Ég er sjálf engu betri, hingað til. En nú verður breyting á. Hættum að tuða og förum að framkvæma. Skyr og kartöflur í öll mál. Hættum að kaupa húsgögn á Visa rað. Ég er snarhætt við að stækka við mig húsnæði. Ég ætla að þrauka hér á tiltölulega lágum afborgunum þar til ég fer í sérnám. Ætla ekki að gera bankana ríkari með því að spenna mig í hærri afborganir fyrir eitt herbergi í viðbót. Eitt herbergi á 15 milljónir í Hlíðunum. 15 milljónir plús sölulaun plús stimipilgjöld plús lántökukostnaður plús vextir. Kostakjör.
Ég er svo glöð í hjarta mínu að hafa keypt allar jólagjafir í Minneapolis. Þar sem allt var á útsölu, FYRIR jólin. Humm. Sé mest eftir að hafa ekki keypt þennan viðbjóðslega Skelfi í tonnavís og selt í Kolaportinu á 2500 krónur stykkið. Muhahahaha. Sko, það blundar í mér Hrói Höttur.
Er enginn með mér?!

laugardagur, janúar 13, 2007

Neysluverkfall

Nú blæs ég til þjóðarátaks. Ég treysti á ykkur lesendur mína að standa með mér. Nú förum við i neysluverkfall. Hættum að láta taka okkur í ósmurt með 300% álagningum. Nú verður bara hafragrautur og hrísgrjónagrautur í matinn á mínu heimili til skiptis þar til græðginni slotar. Verðlagningin í þessu landi er í alvöru ekki í lagi en hún breytist ekki á meðan við látum bjóða okkur þetta. Setjið þetta á bloggið ykkar og hættið að spreða. Það mun borga sig.
Kv. Bjarstýnisstrympa.

Sequence skandall

Reið ekki feitum hesti frá Sequence móti kvöldsins. Mættir voru mágur minn og svilkona. Ég og mágurinn töpuðum úrslita viðureigninni fyrir Dodda og svilkonunni. Því er ég önug núna. Ég er aðallega önug út í Dodda, ég fer ekkert að verða önug út í svilkonuna, til þess er ég of fáguð. En fari Doddi bölvaður, réttast væri að hann svæfi einn. Sjittfokkdem.
Annars er ég ekkert tapsár. Ég er minnst tapsár allra sem ég þekki. Í alvöru!
Annars vil ég fara að hitta Petlerinn minn í Sequence. Það vantar allt trash talk í þetta. Og eins og allir alvöru Sequence spilarar vita þá er trash talkið 60% af leiknum. Það ásamt því að staðsetja sig strategiskt á borðinu, en við Örvar erum einmitt meistarar í strategiskum staðsetningarákvörðunum. Þetta er að verða aðeins of fræðilegt Sequence blogg. Og ég er ennþá önug.

föstudagur, janúar 12, 2007

Dagmömmuterror

Það skrifar einhver Sjallagella í Moggann og mærir dagmömmukerfið. Finnst að dagmömmukerfið eigi að vera sjálfsagður og góður valkostur. Djöfulsins krapp. Að setja þetta upp sem valkost er náttúrulega bara fyndið. Enginn velur dagmömmur. Þær brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Um leið og barnið fær pláss á leikskóla er það bæ bæ dagmamma. Það er enginn svo ánægður með dagmömmuna sína að hann velur hana áfram framyfir leikskóla. Sem segir okkur það að ef börn kæmust fyrr á leikskóla myndu þau hætta fyrr hjá dagmömmunni, ef börn kæmust strax á leikskóla færu engin börn til dagmömmu. Kalt mat. Persónulega finnst mér dagmömmukerfið harmleikur. Að ein kona beri ábyrgð á 5 börnum er rugl. Hvað ef það kemur upp krísa með eitt barn? Hver gætir þá hinna á meðan? Rugl. Ég vil bara fá Vuggestue þar sem eru margar konur. Þar sem það skapast engin krísa þó ein þurfi að bregða sér frá.
Ég spurði einu sinni reynda dagmömmu hvernig hún færi að þegar þau væru mörg að gráta í einu og vildu láta halda á sér. Hún svaraði því til að þau lærðu það fljótt að það þýddi ekkert að grenja, hún myndi ekki halda á þeim. En fallegt. Rúmenska kerfið.
Ég mun aldrei notfæra mér dagmömmur. Never.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Hvað höfum við gert barninu?

Ég hef lengi staðið í þeirri meiningu að við Þóroddur séum ágætis foreldrar og ágætis fólk hreinlega. Eitthvað er Ingvar brenndur af samneytinu við okkur því um daginn sagði hann við vini sína: "Ég ætla ekki að verða læknir. Ég ætla að brjóta þessa hefð. Langafi Þóroddur var læknir, afi minn er læknir, pabbi er læknir, mamma er læknir, Baldur er læknir, Palli er læknir. Ég ætla sko ekki að vera læknir."
Þá sagði ég til að klóra eitthvað í bakkann: "En Palli er ekki læknir, hann er í lyfjafræði." Frekar aumkunarvert mótsvar.
En þá svaraði Ingvar: "Það er sama. Hann er að búa til lyf til að lækna fólk."
Það er svei mér mikið lagt á lítið barn að vera umkringdur öðru eins pakki.

sunnudagur, janúar 07, 2007

One tree hill

Ég veit ekkert um málið. Það fyllir mig óöryggi.

Þyngdarlögmálið sigrað?

Sprengingarnar í gær á þrettándanum voru Ingvari efniviður í heimspekilegar hugleiðingar. Í þetta sinn um flugelda og eðli þeirra. Gömul aðventugremja gerði vart við sig hjá mér. Djöfulinn á ég að vita um fjárans eðli flugelda? Veit ekkert um málið og hef engan áhuga á því að fræðast um það. Ingvari tókst að vera fyndinn, án þess að ætla sér það. Hann var að furða sig á því hvernig stæði á því að aldrei fengi neinn rakettuprikin í hausinn á gamlárskvöld, en samt væri jörðin þakin slíkum prikum á nýársdag. Eftir vangaveltur um það hve hátt flugeldarnir færu etc. var hann einna helst á því að þyngdarlögmálið væri kannski að verða lélegt. Þess vegna væru prikin svona lengi að svífa til jarðar. Já já. Það er ábyggilega mergurinn málsins. Þyngdaraflið er að gefa sig.

föstudagur, janúar 05, 2007

4 ár

í dag. Stutt síðan það voru 3 ár. Þetta líður bara hraðar og hraðar, svei mér þá. Ég er því bara nokkuð hress í dag. Er með fullan ísskáp af ostum og vínberjum og á von á einhverju liði hér í kvöld. Fólki með vafasama fortíð en bjarta framtíð. Engir löggumorðingjar í kvöld þó. Já það er gaman að þessu.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Skaupblogg

Skaupið var gott. Skaupið VAR gott. Mér fannst það helvíti fyndið og beitt. Baugstrailerinn er bara eitthvað það fyndnasta sem ég hef nokkurn tíma séð í innlendri dagskrágerð. Og mjög margt annað verulega fyndið líka. Gott að horfa í annað skipti á netinu, þá skildi ég til dæmis Plútó djókið. Samt er ég mjög vel gefin. En skaupið var gott.
Þá hefur frúin mælt. Amen.