luxatio hugans

awakening

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

KARAKTER!!

Auja vinkona mín gaf mér hlaupabók í afmælisgjöf. Hún heldur því reyndar fram að hún hafi selt mér bókina að andvirði bakteríu- og eða vírussýkingar en hvað um það. Auja gaf mér hlaupabók. Í þessari hlaupabók, sem er mögnuð, er sett upp plan hvernig maður eigi að ná markmiðum sínum við hinar ýmsu vegalengdir. Mjög sniðugt. Hlaupaplanið sem ég er að fylgja núna miðar að því að hlaupa 10 km á 55 mín. Í planinu, sem er mjög nákvæmt, er mælt með að hlaupa hills á miðvikudögum. Framar í bókinni eru leiðbeiningar um hill training sem eru mjög gagnlegar en svo kemur klausa um andlega þáttinn: As you do the hill repeats, say to yourself, either mentally or verbally, "character." Repeat it over and over. On race day when you discover a hill on the course, think back to the hill sessions and repeat the word "character."
Úff. Ég er að verða töff og karakter, allt í einni og sömu vikunni. Töff karakter með stinnan hlauparass. Því svo sannarlega tók ég hills session í dag. Karakter. Karakter. Karakter. Karakter.

Töff

Ég skynja það á þeim konum sem ég miða mig við og vil helst líkjast að nú er málið að vera töff. Að vera töff var alveg málið þegar ég var 9 ára og "Töff týpa á föstu" kom út. Hins vegar virðist ég vera svolítið sein að taka við mér að verða töff núna, í þessari töffbylgju sem nú gengur yfir. Hinsvegar er ég töff. Ég hef alltaf verið töff. En nú verð ég meðvitað töff.

Clay Aiken og Anna María

eru bæði fædd þann 30. nóvember 1978.
Hey Mæja það er nú ekki amalegt!
Eða..... daufa!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Afmælisbarn dagsins

er ljósabekkjabrúni, helstrípaði, Selfosshnakkinn, Kristín Harpa Hálfdánardóttir!!
Skv. nýjustu bloggfærslunni hennar er hún jafnframt á góðri leið með að verða helmössuð og þá veit ég ekki hvar þetta endar.
Til hammara með ammara Kristín mín! Þar sem við erum nú jafnaldrar þá finnst mér hálfóþægilegt að láta minna mig á að þú sért orðinn 25 ára. Vúff. Tíminn líður maður!

Ertu búin að ákveða í hverju þú ætlar að sérhæfa þig???

Algengasta og jafnframt leiðinlegasta spurning sem ég fæ reglulega. Það er með þessa reglu eins og aðrar reglur að það er intverval. Hér er intervalið átakanlega stutt. 1-2 dagar. Án spaugs. Í núna 5 ár hef ég fengið þessa spurningu 2-3 í viku. Þið sem eruð að lesa þetta, mig langar að segja ykkur núna að ég mun væntanlega vita svarið við þessari spurningu, ja.... hvað eigum við að segja........ svona í maí 2009. Please ekki spyrja mig vikulega þangað til! Það sama gildir um spurninguna sem ALLTAF kemur í kjölfarið: "En Doddi? Í hvað ætlar hann?"
Hvaða andskotans máli skiptir þetta svosem? Er fólk að reyna að ákveða hvaða sjúkdóma það ætlar að fá. Eða í einhverjum tilfellum.. ætlar ekki að fá?
En í ljósi þessarar gremju minnar þá finnst mér það sérstaklega áhugavert að Heiðrún bekkjarsystir mín og lesstofufélagi er búin að ákveða í hverju hún ætlar að sérhæfa sig. Hún ætlar að verða geðlæknir. Svo ef þið hittið Heiðrúnu, a.k.a Dr. Maack, þá verið ófeimin að hefja spjallið á orðunum: "Já svo þú ætlar að verða geðlæknir?"

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Prófablogg

Enn á ný er ég komin í prófalestur. Kannski er ég með lélegt minni en mér finnst ég vera í prófalestri fokking megnið af árinu. Okkur var hent út af Barónstígnum eins og hverjum öðrum meindýrum, og nú erum við komin í Ármúlann. Þetta er ekki sami sjarmi þrátt fyrir að sjálft húsnæðið sé miklu nýrra og ekki að hruni komið. Meiri sjarmi að lesa á uppgjafa líknardeild. Svona er þetta skrítið!
Nú eru að skila sér samtölin sem ég átti við geðKortið langt fram á nætur, því nú skal einmitt þreyta próf í geðlæknisfræði. Geðlæknisfræði er MJÖG skemmtileg og sjúklega spennandi. En því miður þarf ég einnig að lesa undir taugalæknisfræði á sama tíma sem er ekki neitt skemmtileg og langt því frá spennandi. Ó mig auma. En báðar þessar sérgreinar eiga heima í miðtaugakerfinu að einhverju leiti svo þetta tengist. Því eru svo skemmtilegir þessir fordómar gagnvart sjúkdómum sem leggjast á heilann og kallast geðsjúkdómar en mikið umburðarlyndi gagnvart sjúkdómum í heila sem kallast t.d MS. Skrítna veröld.
En ég er bara "geðveikt" hress í Ármúlanum. Og langt þangað til ég fæ greininguna F73.0 eins og sumir félaga minna.

Án söguþráðar

eru hér nokkrar myndir í viðbót frá Bushlandi.Auja gaf okkur nammi á amerískan máta. Áður lét hún okkur Dodda klæða okkur í búninga, banka framdyramegin og kalla: "Trick or treat". Auja er svo hress!Staðið við tréð sem háskólastúdentar fleygja skónum sínum í þegar þeir missa svein/meydóminn. Já ég var að drepast úr kulda!!!Gísli sýnir okkur all american locker. Innan á hurðinni voru myndir af Auju.Pakkað niður fyrir heimferð í nýju Jagúar ferðatöskurnar sem keyptar voru á hálfvirði í JC Penney.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

USA uppgjörið

Lentum hress og kát í States á fimmtudagskvöldi. GeðKortið kom á völlinn og tók á móti okkur. Við höfðum sem betur fer ákveðið að taka ekkert allt of mikið af farangri með okkur út, og því var allt í lagi að draga þessa einu ferðatösku, sem betur fer var á hjólum, og einn handfarangur á eftir Gísla þar sem hann gekk um allan alþjóðlega flugvöllinn í Minneapolis og reyndi að muna hvar hann hafði lagt bílnum. En bíllinn fannst og við fórum og hittum Frúna og litla Kortið. Það var gott að sjá Frú Kort, því er ekki að neita. En ég fór langt því frá að grenja. Reyndar var ég pínulítið hás með byrjandi hálsbólgu þarna á fimmtudagskvöldinu og það átti bara eftir að versna þegar á leið. Kortararnir fóru með okkur á all american diner þar sem við úðuðum í okkur fyrir no money at all. Snilld sem við áttum eftir að gera mjög, mjög, mjög mikið af í ferð þessari. Svo var brunað á Kort Mansion.
Afmælisdagurinn rann upp bjartur og fagur. Við Doddi vöknuðum klukkan 5 að staðartíma, enda 6 tímum á undan líkamlega. Reyndum að hafa hægt um okkur og vera ekki gestgjöfunum til ama. Doddi gaf mér afmælisgjöfina og svo fórum við í gönguferð. Þegar við komum til baka mætti okkur Frúin nývöknuð og hálftryllingsleg útlítandi og sagðist hafa verið að leita að okkur. Hún hefði hreinlega ekki verið viss hvort við hefðum komið í gær eða ekki. Smá delerium þar á ferð.
Svo var farið með afmælisfrúna í all american afmælisbrunch. Snilld. Ég át yfir mig en var samt ekki södd. Ég átti bad hairday allan afmælisdaginn. Ég kenni hárblásaraleysi FrúarKortsins þar um. Einnig var ég komin með slæma hálsbólgu og gat varla talað. Það þótti FrúarKortinu ekki verra enda er konan málglöð með eindæmum eins og þeir vita sem þekkja hana. Að loknum brunch var verslað fram að kvöldmat en þá fórum við á Red Lobster. Auja gaf mér afmælisgjöf sem var styrkjandi fyrir sál og líkama. Alltaf að hjálpa öðrum.
Á laugardeginum löbbuðum við um Campusinn í University of Minnesota eða U of M. Úff hvað maður finnur til þess hvað aðstöðuleysi Háskóla Íslands er átakanlegt. En ég nenni ekki að skrifa um það. Það er deprimerandi og ekki viljum við vera það. En við Auja flippuðum samt í minjagripabúð U of M þar til við vorum skammaðar. Andlegt mein.is!
Sunnudagurinn fór í Mall of America. Jesús. Ég stóð bara og hringsnerist og gat ekki keypt neitt. Of mikið úrval. Of stórt. Of yfirþyrmandi. En ég náði að taka mér taki og eyða mjög miklu af peningum. Vel af sér vikið. Við slepptum því reyndar að fara í rússíbanann sem er í skemmtigarðinum í miðju mollinu, en sáum heimsins stærsta piparkökuhús. Well.
Á mánudeginum var mjög margt gert í síðasta skipti í Ameríku. Mjög mikið af góðum mat var borðað enda síðasta tækifærið. Reyndar vorum við svekkt að hafa ekki komist á Body Worlds sýningunna og ég hefði viljað komast á all american fund í Mekka nafnlausra félaga minna. En því varð ekki við komið og Auja keyrði okkur hjónin á flugvöllinn eftir magnaðan túr um bygginguna þar sem öll Health Science eru kennd í U of M í fylgd Gísla hjúkkuxxxxxx. Annars ætti ég ekki að uppnefna Gísla því honum er annt um tilfinningar mínar eins og kom berlega í ljós þegar ég þurfti að tjá mig um nuddstólana sem fást orðið á hverju götuhorni. Þegar á flugvöllin var komið grét Auja pínulítið, ekkert vandræðalega mikið samt, og við Doddi tókum töskurnar 6 úr bílnum. Ég minni á að við komu til landsins voru töskurnar 2. Auja keyrði burt á mini vaninum og við Doddi drösluðum töskunum inn í flugstöðina og leituðum að Icelandair skilti. Þar sem við þrömmuðum um og vorum orðin örvæntingarfull rákumst við á vingjarnlega konu sem sagði okkur að Icelandair flygi alls ekki frá Minneapolis á mánudögum heldur þriðjudögum. Símtal til Auju. Hey! Geturu náð í okkur aftur? Við förum ekki fyrr en á morgun. Jæja góða við það var að núna náði ég fundi á mánudagskvöldinu, við Auja fórum út að hlaupa meðfram Missisippi á þriðjudagsmorgninum í sól og kulda og það var alveg jafn töff og það hljómar, við fórum á Body Worlds sýningunna, náðum að versla pínulítið meira og náðum SÍÐUSTU all american máltíðinni. Shit hvað það var gott að borða þarna. Þeir gera mjög góðan mat og ég yrði þokkalega obese á nóinu ef ég byggi þarna. Sem sagt klúðrið fullkomnaði ferðina.
Aftur var brunað á völlinn og í þetta sinn fórum við í loftið. Vel gert.
Summary: Kortararnir eru meiriháttar heim að sækja. Gestrisin, fróð um umhverfi sitt og alveg laus við að tapa gleðinni. Þetta var helber snilld og við förum fljótlega aftur. Líf og fjör.


Auja horfir yfir Missisippi af svölunum sínum.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Þrátt fyrir háa greindarvísitölu

Smá tæknileg mistök hjá Doktorunum áttu sér stað í gær. Ekkert merkileg svosem, ekkert af sama kaliberi og tæknileg mistök sem fyrrverandi/verðandi þingmaður gerði. Ég ætla bara að biðja alla sannleikselskandi, heiðarlega lesendur að hunsa lygasöguna sem Kortararnir eiga sjálfsagt eftir að sjóða saman af atburðinum. Það getur komið fyrir alla, ALLA SEGI ÉG, að ruglast á heimferðardagsetningum. Og að halda öðru fram er skortur á auðmýkt. Ekki vill fólk láta það fréttast um sig að það þjáist af skort á auðmýkt? Nei nei, enda bara gaman að sjá meira af US and A. Gaman líka að ná að bæta svosem eins og einu kíló í viðbót á mjaðmirnar. Já það er gaman að þessu, það er ekki hægt að segja annað. Ferðasagan kemur næst.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

US and A

Here I come!

Klappiklapp

Það munaði hálfu sekúndubroti að ég hefði klappað konu í pels áðan. Á síðustu stundu greip framheilinn inn í og stöðvaði hægri hendina á búknum sem þau eru bæði áföst. En fjári var þetta freistandi!

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Gengið með ælur og lögfræðileg álitamál

Það er orðið langt síðan ég hef ælt einhverri gremju á þetta blogg í bræðiskasti. Ég geng með slíka ælu í maganum núna. Ég er komin með regurgitationir svo það er stutt í spýjuna. Áður hef ég þó leitað mér álits á málefninu. Reyndar ekki hjá lögfræðing en lögfróðum manni, að ég tel. Kannski er þetta bara vitleysingur? Kannski er hann ekki einu sinni með B.A gráðu? Jæj a kannski virkar þetta eins og að telja upp á 10 áður en maður brjálast en kannski verður drama á luxatio hugans. Bíðið spennt.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Formið og Pólitíkin

Nú er auglýstur grimmt nýji raunveruleikaþátturinn: "Frægir í form". Ég þekki engan af þessum frægu Íslendingum nema Árna Johnsen, þingmanninn verðandi. Nú veit ég ekki alveg hvort ég fagna því að búa í þessu liberal þjóðfélagi sem er fljótt að gleyma og fyrirgefa að það hleypir glæpamönnum á þing. Árni hætti náttúrulega að vera glæpamaður daginn sem hann fékk uppreisn æru svo sjálfsagt er ég að gerast sek um glæpinn rógburð. En ég veit það ekki. Er ekki svolítið smart að gera kröfu um að glæpafortíð þingmanna vorra sé í lágmarki? Að þeir hafi tiltölulega flekklausa fortíð? Eða endum við þá eins og Svíarnir sem segja af sér þingmennsku í hrönnum fyrir að borga ekki afnotagjöld og borga barnapíum svart? Helvítis Svíarnir! En það góða við þetta er að ég er gjaldgeng á þingið. Og forsetastólinn. Sjáumst þar.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Powerrade hlaupið

var hlaupið í gærkvöldi. Undirrituð var meðal þátttakenda. Kvíðinn fór stigvaxandi síðustu daga fyrir hlaup. Hvað ef ég gefst upp? Hvað ef ég verð á ömurlegum tíma? Hvað ef og hvað ef. Þekkjandi sjálfa mig til margra ára (Nei ekki 30 ára Auja) þá veit ég að líkurnar voru með því að ég myndi hætta við að fara í þetta hlaup. Því málaði ég sjálfa mig markvisst út í horn á mörgum vígstöðvum. Veðmál við Svessa um bílaþrif, stofnaði spjallþráð á læknanemum.is þar sem ég hvatti bekkjarfélagana til að fjölmenna og sagði öllum sem heyra vildu að ég væri að fara í þetta hlaup. Niðurlægingin að hætta við hefði verið meiri en að gefast upp í miðju hlaupi. Sama dag og hlaupið fór fram fór veðrið síversnandi frá hádegi og ég var farin að blóta þessum hálfvitagangi í mér að vera að básúna þetta hlaup út um allar trissur. Rétt eftir kvöldmat var svo komið alvöru rigning og rok þegar Baldur hringdi og spurði hvort ég ætlaði virkilega með, hvort ég hefði ekkert verið að grínast. Nei í hlaupið færi ég. Við mættum 6 úr bekknum sem er allgott. Hetjurnar í stafrófsröð voru Aðalheiður, Baldur, Hrefna, Ingi Karl, Sverrir og Valgerður. Auk þess var á staðnum Erla Bolladóttir og byrjaði ég að hlaupa með henni en svo skildu okkar leiðir. Veðrið var viðbjóðslegt, það var kolniðamyrkur og leiðin var ómerkt en samt var þetta magnað. Allan tímann leið mér bara vel, nema rétt upp lengstu brekkuna með 20 vindstig í fangið. Það var ólýsanlegt að klára og leggjast í heita pottinn á eftir í slagveðrinu. Já maður getur auðveldlega orðið háður þessu. Það skildi þó aldrei vera að ég myndi bara mæta í fokkings kvennahlaupið, stolt í kvennahlaupsbol, árgerð 2007. Nei andskotinn hafi það. En tveir síðustu spjallþræðir sem ég stofnaði á læknanemar.is eru Powerrade hlaupið og Basket þræðirnir. Doddi hefur e.t.v framkvæmt á mér heilatransplant í svefni til að gera úr mér boring draumaskutluna sína. Það er jafn líkleg skýring og hver önnur á umskiptum þessum. En það er áhugaverð observation að Vasaloppfarinn sjálfur tók ekki þátt í hlaupinu. Humm humm. En tíminn minn verður bættur í næsta Powerrade hlaupi í des. Sjáið. Þarna strax byrjar yfirlýsingagleðin sem mun skila mér í næsta hlaup. Jamm.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Borat

Leikhúsklúbburinn Lárus fór á Borat í gærkvöldi. Mér fannst hún ógeðslega fyndin. Ógeðslega, er aldrei þessu vant, ekki óviðeigandi lýsingarorð. Því á köflum, þegar ég barðist við að ná andanum í hláturrokunum, var siðferðiskennd minni alvarlega misboðið á sama tíma. Ég hugsaði oft með sjálfri mér: "Aðalheiður! Hvað er að þér að vera að hlæja að þessu?!"
En mér fannst þetta fyndið. Því er ekki að neita.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Tilhlökkun Auju

Ég var að tala við Auju vinkonu mína á msn í gærkvöldi. Ég taldi mig þekkja hana vel en það var margt sem kom á óvart í gær. Til að mynda þegar hún fór að tala um hvað hún saknaði mín mikið. Hún sagðist bara ekki hafa trúað því fyrirfram að það væri hægt að sakna einhvers svona mikið. Svo sagðist hún vera orðin svo spennt yfir því að ég væri að koma eftir 8 daga að hún væri byrjuð að sofa illa og óreglulega. Það hafði byrjað þannig að hún átti smátt og smátt erfiðara með að festa svefn á kvöldin en það hafði svo farið stigmagnandi og nú svæfi hún bara nánast ekkert, enda tekur hún ekkert Imovane við þessum spenningi. Hún ætlar að sjálfsögðu að sækja okkur á flugvöllinn og hún varaði mig við því að hún gæti farið að grenja þegar hún sæi mig eftir okkar langa aðskilnað. Ég var nett sjokkeruð, ég verð að viðurkenna það. En fólk hefur tilhneigingu til að bindast mér sterkum tilfinningaböndum svo ég er farin að venjast þessu. Ég vona bara að Auja skilji að mig langar líka að versla í Minneapolis. En það er gaman að gleðja aðra með nærveru sinni. Það er það virkilega.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Af börnum

Ingvar samdi lag í gær. Hann sat við píanóið með nótnablöð, spilaði nokkra takta í einu og páraði svo á nótnablaðið. Hann merkti g-lykil og f-lykil, setti inn taktmerki og skrifaði þagnir á viðeigandi stöðum. Lagið inniheldur að sjálfsögðu tví-, þrí-, fer-, og fimmundir og er spilaði með báðum höndum. Þegar tónsmíðunum var lokið spilaði barnið lagið sem var á nótnablaðinu. Lagið heitir "Fuglinn gargar". Nú ætla ég að vera alveg hógvær þegar ég segi ykkur hvað það er gaman og gefandi að hafa alið af sér snilling inn í þennan heim. Svona svipað og mömmu hlýtur að líða. En hún er jafn hógvær og ég svo hún talar lítið um það.
Hitt dýrið, sem svarar kallinu Ester Helga, byrjaði í aðlögun á leikskólanum í dag. Hún varð frekar æst af spenningi yfir öllu sem þar var að sjá og móðir hennar var óðara gleymd. Þegar þessi lögboðni aðlögunarklukkutími var liðin og ég sagði við Ester að nú færum við heim, þá braust út í henni villidýrið sem sagði NEI. Hátt og frekjulega. Það sem er jákvætt við þetta er að stúlkan upplifir ekki höfnun við það að vera komið fyrir á stofnun á daginn. Enginn aðskilnaðarkvíði eða PTSD þar á ferð. Verígúd.
Hins vegar er Lydia hálf verkefnalaus hálfan daginn núna svo ef einhver vill láta þrífa fyrir sig hús, þá hafið samband.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Hjúkk

Ég er svo fegin að Brooke og Katie eru orðnar bestu vinkonur, það er alltaf álag þegar það eru átök í vinahópnum.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Fríða og Dýrið

"Hvernig segi ég hálfviti á sænsku?" spurði ég Þórodd eiginmann minn, við matarborðið í kvöld. Spurningin spratt upp frá þrætum sem eru tíðar á þessu heimili þessi misserin. Doddi vill fara að læra í Sverige. Það vil ég ekki. Hvers vegna mér þótti mikilvægast að læra að hrópa ókvæðisorð að Svíum er aukaatriði í sögu þessari. Aðalatriðið er að Doddi vissi ekki hvernig maður segir hálfviti á sænsku. Maðurinn bjó í landinu í 5 ár og á þeim tíma kallaði hann engan hálfvita, fífl eða asna, sem voru varaorðin sem ég greip til. Humm. Hvernig stóð á því að þessi fágaði maður fór að búa með þessari brútal gellu? Beauty and the Beast. Doddi er Beauty. Ég er Beast. Á meðan ég sönglaði: "Tale as old as time...." smíðaði ég hina fullkomnu konu fyrir Þórodd í huganum. Hún er þessi týpa sem er rosalega grönn eftir alla hreyfinguna sem hún hefur stundað allt sitt líf, en er samt átakanlega illa vaxin. Hún myndi aldrei lita á sér hárið og aldrei raka sig að neðan. Hún er úber hress og jákvæð, ALLTAF. Hún er með einhverja Bs. gráðu og er aðaldrifkrafturinn í Laugarvegsgöngu vinnustaðarins ár hvert. Hún klæðir sig ávallt eftir veðri og nælonsokkabuxur eru afþurrkunarklútar í hennar orðabók. Hennar uppáhalds og eina skótau eru uppreimaðir fjallgönguskór og hún sér engan tilgang í því að ganga á hælum, það er jú óþægilegt. Hún væri pottþétt að æfa sig fyrir VASA með honum því það væri áskorun henni að skapi. Hún horfir ekki á sjónvarp, það er tímasóun. Hún heldur ekki úti bloggsíðu því hún hefur ekkert að segja. Hún flytur til Svíþjóðar glöð í bragði því þar er alltaf hægt að komast á gönguskíði. Hún spyr ekki hvernig hún eigi að segja hálfviti á sænsku.
Mikið er ég glöð fyrir Þóroddar hönd að ég náði honum áður en hann hitti þessa sjúklega boring gellu.

Fyndna konan

Siggi stormur spáir stormi!

Vinnu(ekki)blogg

Ég má náttúrulega ekkert blogga um vinnuna mína. En ég hlýt að mega blogga um mig, í vinnunni minni. Eða þar til ég verð klöguð, kölluð inn á teppi og sagt upp störfum. Þegar ég var að vinna á meinafræðideildinni í sumar, þá gerði ég fátt annað en að skera mig. Þar sem þetta voru ekki merkilegir skurðir þá væri þetta ekkert alvarlegt mál, nema fyrir það að hnífurinn var alltaf búinn að fara í gegnum líffæri úr sjúkling, áður en ég skar mig á honum. Þá er þetta ekki orðið smart útaf smithættu og svoleiðis veseni. Þess vegna er alveg merkilegt að einhver sem er jafn sjúkdómahrædd og ímyndunarveik og ég er, skuli ekki vera búin að koma sér upp aðferð til að koma í veg fyrir þessa skurði endalaust. Þvert á móti, tókst mér að skera mig í vinnunni áðan. Greit!! En ekki nóg með það, heldur fattaði ég alltof seint að ég hefði átt að vera með berklagrímu í úrskurðinum í dag. Snillingur. Jæja það er bara mantoux og veiruleit á mánudaginn. Hressandi!

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Ofsóknir, áreiti og almennt rugl

Ég verð víst að viðurkenna það að færslur síðustu daga hafa verið stopular. En það er við manninn mælt að um leið og færslunum mínum fer að fækka, þá rís upp fólk sem birtir að meðaltali eina færslu á ári og er með skæting. Skæting, yfirgang og svívirðingar.
Ég er sem betur fer í svo miklu andlegu jafnvægi að ég læt þetta ekki sveifla mér.
Ég les á milli línanna á öðrum bloggsíðum að mér sé ekki boðið í mat í kvöld vegna þess að svo mikið hefur brotnað úr matarstellinu. Ég brosi góðlátlega þegar ég les slíkt og upplifi enga höfnun. Ef einhver vill heldur fá hjón í mat þar sem annar aðilinn er rekinn úr "Barneignir og fjölskyldan" fyrir dónaskap og hinn aðlinn hefur ekið báðum megin á veginum (og er ekki breskur (if you know what I mean)) þá hef ég umburðarlyndi gagnvart slíku. Aðalatriðið er að vera kærleiksrík.
Það var líka hressandi að sitja á tímaritsfundi í dag og læra að ég var í psychosu í tvö ár af barnæsku minni. Einnig var hressandi að ræða við prófessorinn í einrúmi að loknum tímaritsfundi og komast að því að tímabundin psychosa í barnæsku sem eltist af mér er ekki prognostisk fyrir yfirvofandi psychosu síðar meir. Nema ég sé í psychosu núna. Það myndi nú skýra heilmargt.