luxatio hugans

awakening

mánudagur, október 30, 2006

Ruglið að baki

og áfram með geðið. Það er bara mjög gaman í geðkúrsinum, þrátt fyrir sannfæringu mína um hið gagnstæða, fyrirfram. Sem sannar enn og aftur að fræðsla útrýmir fordómum. Ha? Hvað er ég djúp þessa dagana? Það eru bara engin takmörk fyrir dýpt minni.

sunnudagur, október 29, 2006

Leiðindabloggari

Ég er að verða einn af þeim. Hver hefði trúað því að það yrðu mín grimmu örlög? Það eina sem kemst að hjá mér þessa dagana eru hlaup. Hlaup, hlaup, hlaup. Ég var nú eitthvað að brasast í því að hlaupa með Dodda fyrir u.þ.b 8-9 árum síðan (shit I´m old), en seinna tók ég þá fordómalausu afstöðu að fólk sem færi út að hlaupa, ég tala nú ekki um fólk sem er að hossast upp á fjöll og firnindi, væru fávitar. Fávitar sem ættu sér allt að því ekki tilverurétt. Ég kúgaðist, bókstaflega, þegar ég sá svona útvistarbúið fólk með allskyns útivistaraukabúnað. Þess vegna er það merkilegra en margur gerir sér grein fyrir, að ég hafi getað látið mig hafa það að fylgja Auju heim í bláa vindstakknum sem hún var í, eins og frægt er orðið. En í gær var það auðmjúk kona sem verslaði sér vatns- og vindheldan hlaupastakk (sem þó andar) í Intersport í gær. Og ekki nóg með það, þá var ég svo spennt að eiga þennan nýja hlaupastakk að ég varð að fara út að hlaupa í honum. Fór 10 km á áður óþekkt góðum tíma. Sem er kúl. Ég keypti samt ekki dýrustu týpuna af hlaupastakk því ég er að fara til USA og Auja er víst búin að spotta einhverja geðveika hlaupavöruverslun. Ég er semst að fara til USA og er spennt að komast í flotta hlaupavöruverslun. Ef ég, fyrir fjórum árum, myndi hitta mig í dag, þá myndi gamla ég skalla nýju mig. Fyrir almenn leiðinlegheit. En í dag skalla ég engan. Ég hugsa stundum um það en ég framkvæmi það ekki. Nei, ekki í dag.

mánudagur, október 23, 2006

Helgin

Fór á Mýrina um helgina. Hún var rosalega góð. Ég las bókina fyrir mörgum árum og mundi ekkert plottið eða hver var morðinginn svo ég var ægilega spennt. Mér fannst bara allt gott við myndina en ég var samt svekkt að krufningarsalurinn var ekki frá mínum gamla vinnustað og meinafræðingurinn sem étur yfir líkinu er náttúrulega mesta kliskja ever. Og karlakórssöngurinn. Mér fannst hann ekki alltaf eiga við. Stundum flott en stundum út úr kortinu. Svo bauð Siggi okkur upp á popp og kók í hléi. Já hann Sigurður er svo myndarlegur þegar hann er ekki búinn á því eftir Anastaciu standinn. Þess vegna köllum við hann Sigurð myndarlega.
Nú svo fékk ég að sjá baðherbergi og eldhúsinnréttingu Jóns Fannars. En um enga eldhús- né baðinnréttingu hef ég lesið meira um á netinu. En þó var tvennt í þeirri heimsókn sem sló báðum þeim innréttingum við. Í fyrsta lagi var það nágranninn hressi, hann Erlingur, og í öðru lagi var það laxasalatið sem hlýtur náttúrulega að vera besta laxasalat sem hefur verið gert. Já ég er ekki frá því.

Bakþankarnir

Æi, kannski hef ég ekkert ofsalegt vit á landbúnaðarmálum. Svo ég tek við mótrökum í síma. Því komment eru ekki leyfð frekar en venjulega;)

Útrýming Guttorms og félaga

Ég get ekki varist því að finnast umræða um útrýmingu íslenska kúastofnsins heldur ógeðfelld. Íslenska kúakynið hefur verið hér með okkur síðan landnámsmennirnir námu hér land. Ég er kannski barnaleg en mér finnst það bara nokkuð smart. Upp til hópa geðgóð og gáfuð dýr. Mikil litafjölbreytni er í stofninum og hann er tiltölulega sjúkdómsfrír. Mér finnst það bera vott um taumlausa græðgi, að finnast það réttlætanlegt að útrýma dýrategund, til að eignast beljur sem mjólka eitthvað fleiri lítra. Taumlaus græðgi og allt að því illska hreinlega. Ég vann sem fjósakona sumarið eftir fermingu, svo manni þykir vænt um beljuhelvítin.

miðvikudagur, október 18, 2006

Beisi á efri hæðinni

Við Doddi fórum í mat til Ólafar og Beisa um daginn. Maturinn var góður og öll sú hallelúja ræða. En hins vegar get ég fullyrt að aldrei hef ég verið upplýstari og margs vísari að loknu neinu matarboði fyrr. Þegar Beisi fór að réttlæta það fyrir mér hvers vegna hann væri Frammari en ekki Valsari með búsetu sinni, að Bólstaðarhlíðin væri nær Framvellinum en Valsvellinum, þá horfði ég í fyrsta skipti á hann með öðrum augum. Þau augu sáu Frey litla, son aðstoðarskólastjórans, sem hafði átt heima á hæðinni fyrir ofan mig í Bólstaðarhlíðinni. DETTI MÉR ALLAR DAUÐAR LÝS ÚR HÖFÐI!! hrópaði ég og var hress. Þá fórum við að rifja upp alla sem við þekktum bæði og hann vildi vita í hvaða bekk ég hafði verið í Æfingadeildinni. Þá sagði hann mér að einn bekkjarbróðir minn frá í gamla daga væri einn af betri vinum hans. "En þú þekkir náttúrulega systur hans, Kristínu Þóru!" NAU! ER SIGGI ELÍ BRÓÐIR KRISTÍNAR ÞÓRU?!
Þarna fór ég heim. Hás. Þetta var orðið of mikið að meðtaka í einu lagi.
En þá veistu það Kristín Þóra. Ég var með Sigga bróður þínum í bekk.

MaggaVaff

er úti. Það er bara þannig. Hún hefur áður fengið pena viðvörun, í þetta skipti fær hún enga. Það hafa bara svo fáir úthald í þessum bransa;)
Jamm.

laugardagur, október 14, 2006

Lækkun matarskattsins

hlýtur bara að vera mikilvægasta og merkilegasta baráttumál sem þjóðin stendur frammi fyrir. Reyndar er debetkortamálið ógurlega mér enn ofarlega í huga en matarskattsmálið (senn ógurlega) sækir hart að. Krónan auglýsti lækkun matarskatts um helgina niður í 7%. Ó nú skyldi finna á eigin skinni hve unaðslegt yrði að búa hér á Fróni ef matarskatturinn væri nú bara lægri. Ég dreif mig af stað og verslaði þær nauðsynjar sem virðast gufa upp hér á bæ og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Men hvað ég hlakkaði til að koma að kassanum og láta mér bregða ánægjulega við upphæðina sem nefnd yrði mér til greiðslu. Vissulega brá mér við upphæðina. 8.000 krónur. Einungis nauðsynjavörur. Það óhollasta og mesta bruðlið í körfunni var TUC saltkex, einn pakki. Auðvitað skoðaði ég strimilinn þar sem afslátturinn góði var tíundaður lið fyrir lið. Fullt verð fyrir innkaupakörfuna var 9.111 kr. Afslátturinn var 1.111 kr. Nú er ég enginn grósseri og ég veit vel að ég týni ekkert ellefuhundruð krónur upp af götunni, en mér finnst þetta ekkert muna öllu. Ekki af svona dýrri verslunarferð. Annað ef þetta væri einn haldapoki þá væri þetta drjúgt. Eitt lítið dæmi af innkaupalistanum er tvöfaldur Cheeriospakki á 1.096 krónur, afsláttur 62.91 króna, samtals 1.033 krónur. Það er munurinn á 14% og 7% matarskatt. Frábært. Gerum þetta að kosningamálinu í vor.
Kveðja,
önug læknisfrú í Hlíðunum.

Krúttrassgat

Ester Helga segir ná í staðinn fyrir já.
Viltu borða?
Ná.
Það er bara yfirnáttúrulega krúttlegt. Svo næ ég öllu hárinu hennar í tagl núna og mér finnst hún svo mikil ofurpæja að ég á ekki til orð hvað hún er sæt og skemmtileg. Lítill berserkur er hún samt, en þegar berserkurinn er svona skemmtilegur þá eru öll vopn slegin úr höndum manns. Jæja ég ætla með berserkinn í búð, þá mun kannski kveða við annan tón;) Ciao.

föstudagur, október 13, 2006

Samstillt átak

Oft hefur það skilað miklum árangri þegar þjóðin tekur höndum saman. Nú kalla ég eftir þjóðarátaki. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við þurfum að koma okkur saman um hugtök sem notast skal við þegar greitt skal með debetkorti og meiningin er að fá til baka. Ef ég versla fyrir 262 krónur og segi: "Viltu hafa það 500?" Þá fæ ég undantekningalaust spurningu til baka: "500 slétt eða 500 tilbaka?" Ég meina að sjálfsögðu að þegar kortinu er rennt í gegnum posann að stimplað sé inn 500 enter og ég fái 238 krónur til baka. Annars hefði ég beðið um að fá 500 krónur til baka. Eitthvað virðist þetta ekki augljóst þrátt fyrir það. Því eru einhverjir slöttólfar þarna úti sem segja: "Viltu hafa það 500?" og eiga með því við að þeir vilji fá 500 krónur til baka. Slíkt þykir mér fásinna. Umferðarstofa hefur oft verið með svona kennslumyndbönd um það hvernig skuli haga sér við hinar ýmsu aðstæður í umferðinni. Því ekki kennslumynd til að samræma þessar aðgerðir?

þriðjudagur, október 10, 2006

Jólalyktin

Það rifjaðist upp fyrir mér saga í dag. Ég man ekki hvort ég hef sagt hana áður hér á blogginu mínu en það gildir einu. Þetta er mitt blogg og ég get sagt sömu söguna 100 sinnum ef ég vil. Sagan gerist í MA. Við bekkjarfélagarnir vorum að fara í leikfimi í gamla fjósinu eins og það var kallað. Þegar við komum inn í andyrið mætir okkur viðbjóðsleg lykt. Kattahlandslykt. Hver af öðrum fitjaði upp á nefið þegar hann kom inn og sagði: "Oj, það er kattahlandslykt hér!" Þannig gekk það í einhverja stund þar til Sigurður myndarlegi gekk inn. Hans viðbrögð voru: "Uhm, það er jólalykt hér!" Með þessari sögu er ég ekki með neinar aðdróttanir um hreingerningar móður Sigurðar fyrir jólin. Ég hét nefnilega sjálfri mér að koma vel fram við konuna eftir kvöldið þar sem ég sagði henni í óspurðum fréttum að móðir mín hafði talið son hennar þroskaskertan er hann veifaði glaðlega til hennar innan úr strætó.
Ég er góð. Bara misskilin.

mánudagur, október 09, 2006

Neikvæða konan

er viss um að lækkun matarverðs mun skila sér til verslunarkeðjanna, nei verslunarkeðjunnar, í stað neytenda.

IMAGINE

Koma svo Villi!

Mjólkurklám

Ég er komin með ógeð á því að ekki sé hægt að auglýsa íslenskar mjólkurvörur nema á klámfengin hátt.

sunnudagur, október 08, 2006

Absúrd dagsplan

Vaknaði tiltölulega snemma á laugardagsmorgni og var hress. Ákvað að fara út að hlaupa fyrir fund og gekk ágætlega þrátt fyrir að athöfnin hafi verið sigur hugans yfir líkamanum allan tímann. Líkaminn öskraði í hverju skrefi: hætt-u-þess-u, hætt-u-þess-u. En ég hljóp 10 km, eða 9.6 km réttara sagt. Það er ekki hægt að ljúga að sjálfum sér þegar hlaupið er með gps græju á öðrum úlnliðnum og púlsklukkuna á hinum. Hver þarf lóð? Var að verða of sein á fund svo ég rauk í æfingafötunum á fund og þar fór mér að líða illa. Hélt náttúrulega að ég hefði ofgert mér í hlaupunum og var æðislega óhress. Þegar ég kom svo heim var eins og ég hefði verið skotin. Ég lagðist í sófann og þar ligg ég enn rúmum sólarhring seinna. Niðurgangur, uppköst, beinverkir og hiti. Algjör viðbjóður. En ég er svo klikkuð að ég er mest fegin að ég var BÚIN að hlaupa þegar veikindin byrjuðu. Mar má ekki missa niður þolið. Aumingja litlu vanræktu börnin mín eru einhvers staðar með Baldri núna. Ekki skemmtilegasti sólarhringur í þeirra lífi, ég hef nánast ekkert getað gert fyrir þau. Minnir mig á timburmennina forðum þegar ég var ljósfælin í krömpum heilu helgarnar. Sem betur fer bygones. Ekki langar mig þangað aftur.
En mitt í sófalegunni minni hafði ég mig í það að hringja í Svölu vinkonu mína í Köln. Allar heimsins ælur eru barnaleikur miðað við það sem þeirra litla fjölskylda gengur í gegnum núna. Hugsanir okkar eru hjá þeim og við sendum þeim baráttukveðjur. Ég vildi að við gætum gert eitthvað meira en almættið sér um rest. Jamm.

laugardagur, október 07, 2006

SURPRISE!!!!!!!!

Í gær var ég í 1. skipti í svona óvæntu teiti sem heppnaðist að halda leyndu. Það átti að kveðja Auju óvænt áður en hún færi til USA en Gísli hjúkkudrusla klúðraði því. Eða fjölskyldan hans Gísla. Eða eitthvað.
Ég hef sjaldan verið eins spennt eins og í gær. Mætti hálftíma of snemma á partýstaðinn með niðurgangsverki því ég var svo hrædd um að vera ekki komin á undan heiðursgestinum. Hefði reyndar ekki þurft að hafa svona miklar áhyggjur af því. Heiðursgesturinn var svo seinn að það stefndi í autolysu hjá konunum sem biðu hennar með glæstar veitingar. En þegar hún loksins kom, og við sáum undrunina í vatnsbláum augum hennar (djók), þá var biðin vel þess virði. Gellan hafði raunverulega ekki clue um allt plottið:) Já þetta var gaman. En ef þið fáið dularfullt símtal frá mér, þar sem ég viðra hugleiðingar mínar um einmanaleikan og vináttuna, hverjir eru RAUNVERULEGIR vinir manns og hverja getur maður stólað á? Þá er ég mjög líklega að setja saman gestalista í óvænta teitið ykkar. Svo setjið á ykkur gloss.

miðvikudagur, október 04, 2006

Heimavinna

Einu sinni í viku á Ingvar að skila sögubók. Semja sögu um fyrirfram ákveðið efni og teikna mynd. Í þessari viku átti hann að semja sögu um strák/stelpu sem er að byrja í nýjum skóla. Hér kemur sagan með orðum og stafsetningu Ingvars:

Einu sinni var strákur sem var í skólanum sínum. Svo þegar hann kom heim frétti hann að pabbi sinn hafi mist vinnuna og fjölskyldan þurfti að flytja langd. Nú hugsaði hann: hvað þurfa börn að gera þegar þau flytja langd. börn þurfa að byrja í nýum skóla. Strákurinn varð sveitur af tilhugsunini og fékk líka fiðring í magan. Ein vika síðan og allt var tilbúið fyrir flytjinguna. Það var komið kvöld og hann var svo kvíðafullur að það var ekki eðlilegt. Nú var komin morgun hann var orðin rosalega kvíðafullur og hann fór í skólan. Svo þegar hann kom voru krakkarnir skemtilegir og kenarinnn góður. Þetta var þá gott eftir allt saman. Endir.

Mesta sögufölsun

vorra daga er fítusinn "Nýtt í dag" á fasteignavef mbl.is. Nú er ég búin að fylgjast með fasteignum í 105 nánast daglega í heilt ár eða svo. Þá er voða þægilegt að nota "Nýtt í dag" fítusinn til að fá ekki alltaf alla rununa sem maður er búinn að afskrifa. Nema hvað að reglulega eru settar inn "glænýjar eignir" sem eru búnar að vera á sölu í 11 mánuði. Og það er ekkert eins og þær séu að koma inn nýjar vegna þess að eigandinn hafi séð að sér og sé búinn að lækka verðið. Nei það er ekki svo. Maður kaupir ekkert 30 ára gamalt raðhús á 48,9 milljónir. Það er bara þannig.

Olli litli

á afmæli dag. Af því tilefni syngjum við:
Afmæli þú átt í dag
og við syngjum gleðibrag.....
Man ekki textann við þennan alíslenska afmælisbrag sem ég lærði á Hagaborg. Voðalega er Hagaborg að koma sterkt til mín núna. Hvað er verið að sýna mér? Ha?
Olli hvað er í matinn?

þriðjudagur, október 03, 2006

Valdaskipti í Valhöll


Hver er þessi Andri Óttarsson? Hvað er að gerast?
Af þessu merka tilefni þykir mér við hæfi að rifja upp gamla sögu af einu af uppáhaldsbörnunum sem ég passaði á Hagaborg. Það var lítill strákur, rétt rúmlega þriggja ára og alveg ólýsanlega skemmtilegur og skýr. Allar dýrategundir hafði hann á hreinu og mikinn fróðleik um hverja og eina. Einn dag fór strákurinn með pabba sínum í sund og samferða þeim í búningsklefa karla var Kjartan Gunnarsson. Strákur mændi á Kjartan góða stund og sagði svo hátt og skýrt: "Pabbi, þessi maður er eins og svín!" Og ef einhver var með dýrin á hreinu þá var það hann:)

sunnudagur, október 01, 2006

Spesmennska

getur verið ótrúlega fyndið fyrirbæri þegar umburðarlyndið er með í för. Stundum ólýsanlega þreytandi. Það getur verið ótrúlega þreytandi til lengdar að umbera blammeringar frá fólki sem er með "betri" smekk á öllum andskotanum. Og hvers vegna er smekkurinn betri? Jú það er þegar enginn veit hvað um er rætt. Tónlistarmenn eru bara góðir og tónlist þeirra verð hlustunar, ef færri en 10 hafa heyrt á þá minnst. Sömu sögu er að segja um leikstjóra, sem mega náttúrulega alls ekki vera enskumælandi, ekki einu sinni hraflfærir, og kvikmyndir þeirra. Bækur eftir undarlegt fólk með engum söguþræði, verður að lesa óþýddar, því ekki er hægt að þýða bækur á íslensku svo merkingin skili sér til lesandans. Ef maður á virkilega að ná þessu......... þá á að lesa á frummálinu.
Það er ástæða fyrir því að sumt verður vinsælt. Það er vegna þess að MÖRGU fólki líkar það vel. Og troðið því upp í samanherpt rassgatið á ykkur snobbarar!