Þegar ég er búin að ákveða að skrifa minn síðasta klámpistil er mér gjörsamlega gert það ókleift. Stundum er það svo að ekki verður orða bundist. Í Blaðinu í dag er grein eftir Atla Fannar Bjarkarson sem heitir:
Hamingjusama klámstjarnan. Þar er rakinn ferill Asiu Carrera, móður, gáfnaljóss og klámmyndaleikkonu. Mikil áhersla er lögð á gáfur Asiu, með greindarvísitölu upp á 156 og aðild að MENSA. Fyrir daga hæstarréttardóms í meiðyrðamálum, hefði ég e.t.v skrifað að Atli Fannar hefði með grein sinni sannað, að sjálfur ætti hann ekkert erindi í MENSA, en í dag myndi ég ekki fullyrða neitt slíkt. Þegar greinin er lesin kemur fram að Asia þessi var lokuð inni í herbergi í hvert sinn sem hún fékk B í einkunn, og lamin ef hún fékk lægri einkunnir, sem strax gefur manni mynd af því heilbrigða umhverfi sem hún hefur alist upp við. 17 ára strauk hún að heiman og lifði á Dorritos flögum þar til henni var komið fyrir á fósturheimili þaðan sem hún strauk. Örugglega vegna hamingju, ástar og góðs atlætis var henni ekki lengur vært þar. Þá fór hún að þjóna ber að ofan og strippa til að hafa í sig og á, en þegar hún komst að því að klámmyndaleikkonur þénuðu meira, leiddist hún út í klámmyndaleik. Í dag segist hún ekki vera að sætta sig við neitt minna þrátt fyrir gáfur sínar??? Gleymum því ekki að hún hefur ekki lokið neinu námi enda ekki aðstæður til þess fyrir 17 ára ungling á götunni að sjá fyrir sér í námi í Bandaríkjunum, þannig að það er skekkt mynd að einblína á einhverja greindarvísitölu. Hún er jafn ómenntuð fyrir því og eflaust með fjárhagslegar skuldbindingar sem gerðu það að verkum að hún ílengdist í vinnu frekar en að fara í nám eins og gerist með svo marga. Að loknum leik í yfir 270 klámmyndum hefur hún aldrei verið hamingjusamari???? Þarna eigum við að kaupa hamingjusömu klámmyndaleikkonuna, en gleymum því ekki hvaðan hún er að koma. Kannski ekki erfitt að vera hamingjusamari en þegar hún var lamin, lokuð inni, svöng og blönk á götunni. Allavega koma brengluð viðmið upp í hugann. Auk þess er ekki ótrúlegt að jafn vel gefin kona og hér er dregin upp mynd af, þurfi að réttlæta fyrir sjálfri sér í hvaða stöðu hún er, einfaldlega til að lifa af. Jú og svo er hún móðir og fram kemur að þegar hún hættir í kláminu þá ætlar hún að einbeita sér að móðurhlutverkinu. Það er ábyggilega æðislegt veganesti út í lífið að geta valið úr, yfir 270 klámmyndum, með mommy dearest á næstu leigu. Ég veit ekki með ykkar komplexa, en mínir komplexar létu á sér kræla þegar ég var í gaggó og mamma var ólétt að tvíburum. Jesús og allir í skólanum hlutu að vita hvernig það gat gerst!!! En ég veit það ekki, kannski fær maður bara respect í States ef allir hafa aðgang að leggöngum móður manns í frímó.
Með sömu "staðreyndum" (ég nennti ekki að hafa fyrir því að afla mér neinna frekari heimilda) fáum við Atli mjög mismunandi mynd af aðstæðum þessarar konu. Hann ætlar sér að draga upp einhverja jákvæða glansmynd af hamingjusömu klámmyndastjörnunni og við eigum að trúa því að þetta sé það sem hún
valdi sér, þess vegna er þessi mikla áhersla á gáfurnar. Þvílíkur brandari. Ég sannfærist enn frekar um það að alltaf liggur einhver eymd að baki þegar konur velja þennan starfsvettvang. Er ekki líklegt að barn sem hefði búið við öryggi og gott atlæti hefði gengið menntaveginn með þessa námshæfileika? Er menntahroki að leyfa sér að spyrja að því? Hvort er það ég eða Atli sem er með brengluð viðmið?