luxatio hugans

awakening

mánudagur, september 29, 2008

Af miðnæturumræðum

Gísli Kort: "Ég hef ALLTAF skynjað Dodda mjög sterkt sem kynveru!"

laugardagur, september 27, 2008

Af Ísland-Frakkland

Ég sit og uppfæri mbl og fylgist með leiknum. Get ekki horft á beinu útsendinguna á ruv.is.
Fékk tár í augun þegar ég sá Ísland jafna. Nú er bara að halda svona áfram. Þær geta þetta. Ekki slæmt fyrir Árna frænda ef dóttir hans tryggir sér sæti á EM á afmælinu hans. Til hamingju með afmælið gamli!

p.s búin að hlaupa umhverfis Lake Calhoun í morgun. Gott að eiga inni fyrir feita brunchinum sem við erum að fara í.

p.p.s datt í hug að skoða flug eða lest til Colombia Missouri. Sé ekkert augljóst! Þarf alltaf að millilenda í Chicago?? Það er fáránlegt!

Viðbót að leik loknum: Jæja það hafðist ekki, en 2-1 er ekkert til að skammast sín fyrir. Þær taka þetta þá bara í umspilinu;) ÍSLAND Á EM!!

Enn á náttfötunum

Og enn situr læknisfrúin á náttfötunum. Í þetta skipti í USA. Frúin á heimilinu er að keyra Kristínu í próf (guð minn góður hvað það er góð tilfinning að einhver annar var að fara í próf) og restin af heimilisfólkinu sefur. Klukkan er nefnilega ekki mjög margt hér, rúmlega 7.00 en það er samt hádegi á minni líkamsklukku svo ég er mjög vel sofin.
Vinkonur mínar hér, sem eru kannski ekkert rosalega uppteknar af tani, gátu ekki séð sóma sinn í því að láta mig vita að hér er búinn að vera 30° hiti dag eftir dag, svo að ég ætti kannski að grípa létt föt með mér. Þekkjandi mig, jafnvel bikini!!!!!!
Nei, nei. Minnug þess að síðast þegar ég var í Minneapolis, reyndar aðeins seinna um haust, þá króknaði ég næstum úr kulda þá pakkaði ég hlýjum fötum. Ég var actually að hugsa um að pakka dúnkápunni minni. Ég lenti um 18.00 að staðartíma í gær í 28° hita og það mætti mér svona hitaveggur þegar ég kom út af flugvellinum, dressed in all black. Well. Það eru víst búðir hér.
Ísskápur Kortaranna er hrikalega girnilegur, fullur af lífrænu drasli sem ég er reyndar í mótþróa gagnvart en er mjög girnilegt. Svo eru Kortararnir svo andlegir að ég finn hugarró mína magnast með hverri sekúndunni sem líður.
Nú er frúin komin heim og er að reka mig út að hlaupa. Það er fínt. Það sem ég veit um dagskránna seinna í dag er að ég er að fara á Hazelden meðferðarstofnunina, þau segja að við séum að fara að skoða hana, en ég hef þau lúmskt grunuð um að ætla að leggja mig þangað inn, svo erum við að fara með lest í annað fylki, ég veit ekki alveg af hverju. Ég þori ekki að spyrja aftur því ég er búin að spyrja svo oft og ég finn að doktorsnemunum finnst ég treg og eru að pirrast. Svo ég segi ykkur bara þegar ég kem til baka hvað við vorum að gera í hinu fylkinu (sem ég man ekki heldur hvert er og verð sjálfsagt lamin ef ég spyr).
Live and fun.
(Líf og fjör).

föstudagur, september 26, 2008

Krónan ALDREI veikari!

ALDREI veikari!! Helvíti gaman að vera á leiðinni til Shoppinapolis Shoppinsota þegar krónan er í sögulegu lágmarki. Ég er fáránlega hress með það. Þetta þýðir jú það að ég verð að eyða tíma með fólkinu sem ég er að fara að heimsækja. Auja og Gísli eru reyndar alveg skemmtileg og það verður spennandi að hitta Kristínu í USA, hún er ábyggilega farin að tala með hreim already. Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka mest til að spila póker í indjánacasino. Það þýðir ekki að ég eigi við vandamál að stríða, póker er eins heilbrigt áhugamál og hvað annað.
Ég er á náttfötunum, ég er ekki búin að pakka einu sokkapari, veit ekki alveg nákvæmlega hvar passinn minn er og ég held bara áfram að blogga og blogga út í hið óendanlega.
Kannski ég standi upp núna og hendi í töskuna.
Kannski.

þriðjudagur, september 23, 2008

Af umburðarlyndi

Eiginmaður minn er inni í herbergi hjá syninum, á fóninum er Back for Good með Backstreet Boys og þeir eru báðir að syngja hástöfum með. Hvað er í gangi veit ég eigi. En ófögur eru hljóðin.

mánudagur, september 22, 2008

Af Bold

Af hverju sér maður ekki leikarana í Bold and the Beautiful fá fleiri verðlaun á Golden Globe? Eða ef ég umorða þetta, fá verðlaun?

sunnudagur, september 21, 2008

Af relapse

Nú er ég aftur orðin geðveikt feit.

fimmtudagur, september 18, 2008

Af dundi

Ég þekki systkini sem eru Eyjólfsbörn. Tvö þeirra virðast ekki þekkja skemmtilegri athöfn en þá að fótósjoppa af mér myndir.
Svo er það þriðja systirin sem ætlar bara að selja mér guðdómlega skó þegar kínverjunum þóknast að svara símtölunum hennar.

Af mannvonsku

minni eða annara?
Þegar ég les um foreldri sem notaði barnið sitt fyrir hnífaskotskífu þá óska ég helst af öllu að tekin verði upp kindabyssa og viðkomandi lógað. Svona viðbjóðsleg samfélagskrabbamein ætti bara að uppræta með öllum ráðum og með ráðum þá á ég ekki við neitt helvítis HAM.
Strax á eftir les ég svo að æðstu ráðamenn í Póllandi vilji lyfjavana barnaníðinga og þá líður mér eins og Pólland sé samfélagið til að miða sig við.
Það má vera að ég sé úrill og illa sofin eða það má vera að ég sé að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum níðingsfréttum í fjölmiðlum dag eftir dag. Sjúkleika mannsskepnunnar virðast bara engin takmörk sett.

Af líkamsmati

Ég sat í dag og kleip í alla keppi sem ég gat fundið og fannst þeir eitthvað með minna móti. Gólaði því glöð í bragði: "Sjitt hvað ég er sjúklega mjó!"
Ingvar stóð hjá mér og sagði: "Fyrir nokkrum dögum varstu að grenja yfir því hvað þú værir feit"
Ég eitthvað skúffuð: "Já en nú er ég sjúklega mjó."
Ingvar: "Ég sé engan mun."

mánudagur, september 15, 2008

Andskotans djöfulsins

og fleiri vel samanfléttuð blótsyrði.
Hvernig má það vera að helvítis dollarinn haldi áfram að styrkjast gagnvart krónunni þegar hrun verður á fjármálamörkuðum í States? Ekki það að mér gæti svo sem ekki verið meira sama hvernig fjármálaguttarnir hafa það blessaðir en ég er að fara að versla og vil sjá dollarann lækka snarlega á næstu 10 dögum!!!
Auja ertu ekki búin að taka status á öllum hlaupabúðum í 5 km radíus frá heimili þínu? Kristín var eitthvað að tala um að versla sér Garmin, hljótum að finna út úr því fyrir hana;)

sunnudagur, september 14, 2008

Af knúsi og krami

Nú er ég búin að margtyggja hér á blogginu hvað mér þykja þetta viðbjóðslegir frasar og samt heldur fólk áfram að skrifa þetta tvist og bast út um allt internetið!
Nú er ég ekki að segja að ég SÉ Queen of the universe, en mér finnst að ég ÆTTI að vera það! Fólk ætti að taka það til sín sem ég segi og skrifa svo það sé þolanlegt að búa í þessum heimi. Aumi pöpull.

laugardagur, september 13, 2008

John Barnes! Dagar þínir eru taldir!!

Hvernig vogar maðurinn sér að afskrifa David Beckham sem er bæði góður og fallegur og hefur aldrei gert neinum neitt??
Ég sit hér og græt yfir þessum ummælum.

Uppgjör vikunnar

Í vikunni lét vinur minn út úr sér: "Týpiskt! Og ég sem var búinn að stóla á þennan heimsendi!"
Í vikunni sat vinkona mín á flettifundi með teyminu sínu og mikill hasar í mönnum að ná í lið fyrir Landspítalahlaupið. Yfirlæknirinn á deildinni benti á hvern og einn einasta inni í herberginu og nafngreindi þá: "Jón! Þú getur hlaupið! Þú verður í liðinu!", "Gunnar getur þú ekki hlaupið?" Þar til kom að vinkonu minni, þá benti hún á hana, hikaði í augnablik og benti svo á næsta við hliðina á henni, "Sigga þú hleypur!"
Talandi um að upplifa sig sem einn af hópnum;)
Vinkona mín er í sjúklegu formi og hefði hlaupið þessa 6 km á undir 30 mín leikandi. Þeirra tap.

miðvikudagur, september 10, 2008

Af gæsamyndbandi Kristínar Þóru

þriðjudagur, september 09, 2008

Smárinn

Ingvar hefur opnað banka. Hann heitir Smárinn. Hann hefur tvo viðskiptavini, Dodda og Ester. Auk þess hefur Jón Gunnar opnað reiking í bankanum sem er innistæðulaus og svo held ég að honum hafi tekist að lokka Baldur og Sigga Árna til að opna reikning í kvöld. Gott dæmi um dinner sem skapar viðskipti. Hann sendir viðskiptavinum sínum yfirlit í tölvupósti. Jón Gunnar var að segja mér frá einu slíku sem honum barst:
Staða 0
Skuld 0
Úrvalsvísitalan er í 9.9.
Þú færð nýtt yfirlit á morgun.

Gott að halda utan um þetta frá degi til dags.

sunnudagur, september 07, 2008

Ester segir nei takk

Ester segir gjarnan "Nei takk" á ofur sætan hátt. Það er í eðli sínu kurteisislegt en hún misnotar það hins vegar gróflega.
Ég segi til dæmis: "Ester komdu að bursta tennurnar" og hún svarar mjög kurteislega: "Nei takk."

Kann sig eins og faðir hennar.

Af þrítugsafmælis Spa

Þegar Begga vinkona varð þrítug í maí (sjitt hvernig tilfinning ætli það sé að vera þrítug?) ákváðum við þrjár, ég, hún og Kristín H, að lyfta okkur eitthvað á kreik af því tilefni. Nú svo leið tíminn án þess að stundaskrár okkar næðu að stemma og í raun orðið styttra í þrítugsafmæli Kristínar Hörpu í nóv og því ákváðum við að lyfta okkur á kreik í tilefni af þrítugsafmælum okkar allra (þó mitt sé í raun á næsta ári - eða þarnæsta, ég man það ekki).
Kristín H pantaði tíma handa okkur í Riverside Spa á Hótel Selfossi og tókum við daginn í gær í það. Þetta var argasta snilld. Aðbúnaðurinn er sturlaður og þjónustan var ýkjulaust sú albesta þjónusta sem ég hef komist í tæri við á þessu landi. Þær gerðu eitthvað smá klúður í sambandið við bókunina í nuddið, eitthvað sem skipti akkúrat engu máli og við vorum algjörlega kúl yfir því, en við fengum allar 50% afslátt af meðferðinni og eins mikla drykki og við gátum drukkið, Kristín fékk fría litun og plokkun og við Begga fría andlitsmaska. Þetta var of mikið. Ég fékk heiftarlegt samviskubit þegar hún gaf okkur ofan á þetta 50% afslátt þegar við gerðum upp, því dagurinn var snilld. Maður á að fá 50% afslátt þegar allt er ömurlegt!
Svo keyrðum við á Þorlákshöfn á Hafið Bláa og vorum æðislega skömmustulegar þegar við játuðum að okkur langaði bæði að panta okkur humarsúpu og grillaðan humar, sem og við gerðum.
Mikið slúðrað og mikið rifjað upp. Einhverra hluta vegna man Kristín fleiri hluti en við Begga, ég skil það ekki, eins og við Begga höfum verið í annarlegu ástandi árum saman og minnið því gloppótt;) En þá er gott að hafa Kristínu til að minna mann á hluti sem gleymdust af ástæðu!
Snilldardagur.

laugardagur, september 06, 2008

Kallið mig paranoid

og kannski er ég það, en ég hef það á tilfinningunni að það hlakki í fólki þegar ég segi þeim hvað læknar hafa léleg laun. Serves you right you punks. Helvítis hrokkapyttirnir ykkar!
Þrátt fyrir það hef ég stutt ljósmæður í sinni kjarabaráttu, ekkert opinberlega reyndar en í hjartanu, og það er í hjartanu sem raunverulega telur;)

En hvað les ég svo á mbl.is í gær: "Bent var á að engin háskólastétt uppfylli jafn miklar menntunarkröfur og ljósmæður til að geta starfað við fag sitt eða 6 ára háskólanám nema dýralæknar."

Þá fauk í mig! Andskotans helvítis þvæla er þetta?! Ég þarf að ljúka 7 árum til að mega starfa sem læknir. Eftir mín 6 námsár starfa ég sem kandidat fyrir 274.000 kr. á mánuði. Það er lægra en núverandi grunnlaun ljósmæðra með sitt 6 ára nám og þær fara fram á 25% hækkun þeirra launa. Sem er fínt, en þá hljóta kandidatar að eiga kröfu á sama.

Annars geri ég orð Þóroddar að mínum, því hann lagði á sig skrif sem ég nennti ekki:

Eftir 6 ára háskólanám útskrifast verðandi læknir sem cand med og það gefur engin starfsréttindi, ENGIN. Maður hefur ekki rétt til að kalla sig lækni fyrr en eftir 7. árið, kandidatsárið.

Fæðingarlæknirinn sem starfar við hlið ljósmæðurinnar og er ábyrgur gagnvart konunni og barninu er með 7 ára grunnnám auk um 5 ára sérfræðináms (held ég) áður en hann má "starfa við sitt fag". Það gerir 12 ára nám, helmingi lengra en nám ljósmæðra.
(Þetta er áhugaverður punktur, því hvergi í umræðunni um ábyrgð ljósmæðra kemur fram að það er fæðingarlæknir sem er á endanum ábyrgur fyrir fæðingunni, og fæðingarlæknar eru jú mest lögsótta fagið innan stéttarinnar, því það lögsækir engin ljósmóðurina fyrir fæðinguna sem fór úrskeiðis. Innskot Allýjar.)

Þessi skipting í lækni, deildarlækni, aðstoðarlækni, lækni án sérfræðileyfis og sérfræðing er flókin. Launamunur innan læknastéttarinnar er mikill (þó hann sé mun minni hér á landi en víða annars staðar í Evrópu). Það gefur því mjög skakka mynd af því að taka meðaldagvinnulaun og meðalheildarlaun allrar stéttarinnar.

Það er mjög forvitnileg tafla á bls.13 í Morgunblaðinu í morgun. Maðaldagvinnulaun ýmissa umönnunarstétta í BHM árið 2007. Hjúkrunarfræðingar, 4 ára nám 298.657,-kr. Þroskaþjálfar 3 ára nám 291.715,-kr. Iðjuþjálfar 4 ára nám 338.243,-kr. Sjúkraþjálfarar 4 ára nám 304.156,-kr. Ljósmæður 6 ára nám meðaldagvinnulaun 308.173,-kr sem gerir 51.362 kr/háskólanámsár. Ljósmæður eru lægstar í þessum samanburði en hvað gerist ef við bætum læknum við listann sem er ekki gert í morgunblaðinu. Læknar með 6 ára háskólanám eru kandidatar, ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir eru með í dagvinnulaun en ég held að það sé 270.000,-kr 45.000kr/háskólanámsár. (274.000 þús Doddi minn)

Ég er deildarlæknir á LSH, ég veit hvað ég er með í laun. Mig langar að verða sérfræðingur í svæfingu- og gjörgæslu. Það er 12 ára nám áður en ég fæ að starfa við mitt fag á sjúkrahúsi eða á læknastofu úti í bæ. Ég hef lokið grunnnámi 6 ár, kandidatsárinu og einu ári sem deildarlæknir. Ég á því í dag að baki 8 ára nám. Meðaldagvinnulaun mín voru 306.132,-kr árið 2007. Það gerir 38.267kr/háskólanámsár. Þroskaþjálfarar eru með 97.238kr/háskólanámsár.

Mér finnst þessi samanburður eiga fyllilega rétt á sér. Hægt er að benda á að eftir að formlegu háskólanámi líkur séum við í launaðri vinnu og svo að við erum með hærri heildarlaun vegna vaktavinnu sem bætist við dagvinnu. En það eru engin rök. Ég myndi vilja fá hærra dagvinnukaup og minnka vaktavinnu-næturvaktir eru bókstaflega mannskemmandi.

Við unglæknar þurfum að koma þessum tölum á framfæri-við þurfum að sjást í þessari samanburðartöflu. Það er örugglega ekki tilviljun að okkar vantaði.

Kv Þóroddur

fimmtudagur, september 04, 2008

Af sérþekkingu Dr. House

Nú er gaurinn að hjartaóma.

mánudagur, september 01, 2008

Af samkennd

Það er yndislegt alveg hreint að fylgjast með samkennd þjóðarinnar í garð kjarabaráttu ljósmæðra. Það er gott til þess að vita að þjóðin metur nám og ábyrgð í starfi að verðleikum. Þá hljóta læknar með jafn langt nám og ábyrgð og lægri laun en ljósmæður að geta gengið að stuðningi þjóðarinnar vísum í komandi kjarabaráttu. Það er notalegt til þess að hugsa.