Af bangsaplágu
Ég held ég hafi einhvern tímann verið búin að blogga um bangsahelvítið Kolbein sem Ingvar tók með sér heim x 2 helgar á ári frá því hann var í 6 ára bekk. Með þessum óláns bangsa fylgdi dagbók þar sem fjölskyldan skyldi fylla út hvað á daga Kolbeins hafði drifið. Eftir því sem leið á veturinn urðu ævintýri Kolbeins meiri og meiri þar sem hver fjölskylda þurfti að slá út þá síðustu í activity. Kolbeinn brá sér á Esjuna og á skíði og í Bláa Lónið og í leikhús og í bíó og sund og afmæli, allt sömu helgina. Okkur fannst þetta svo plebbalegt að það var að ganga af okkur dauðum að þurfa að taka þátt í þessu. Dodda datt í hug að gera suicide note frá Kolbeini í bókina síðast þegar við fengum hann.
-Of mikið álag, get ekki meir, ætla að drepa mig, kær kveðja, Kolbeinn.
Í dag fengum við svo glaðning heim með Ester af leikskólanum, nefnilega bangsann Maríu og dagbókina hennar. María er nú þegar búin að fara í Krónuna svo það stefnir í æsilega helgi hjá henni. Doddi nefndi það við leikskólakennarann að nú þyrfti að setja allt á fullt til að þetta yrði sem æsilegast og þá sagði gellann að hún hefði stundum verið að lesa upp sögurnar úr bókinni fyrir krakkana eftir helgarnar og þá hefði barnið sem fór með bangsann heim leiðrétt hana. Þá hafði alls ekki allt verið gert sem hafði verið skrifað!! Hvað er eiginlega að! Er fólk að tryllast úr heimsku og meting og fyrir hvern er verið að sýnast?!
Ég spái því að María fái flensu um helgina og verði mest í rúminu.