luxatio hugans

awakening

mánudagur, nóvember 24, 2008

Af grínstrákum

Birkir Jón er nú meiri grínkallinn. Aðrir þingmenn mættu taka hann sér til fyrirmyndar og reyna að létta okkur lundina á þessum síðustu og verstu. Birkir Jón stendur sig í því eins og sjá má hér.

laugardagur, nóvember 22, 2008

Af mótmælum

Hverju er fólk alltaf að mótmæla niðri í bæ?!

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Af gefnu tilefni

þykir mér rétt að árétta að ég og Jón Ásgeir Jóhannesson erum ekki systkini.

mánudagur, nóvember 17, 2008

Þrítugsblogg

Þá er maður þrítugur, kominn á fertugsaldurinn! Og ég sem er svo óþroskuð, hvernig má þetta vera?
Rétt eftir miðnætti í gær óskaði Doddi mér til hamingju með afmælið. Ég réð ekki við mig og fór að grenja. Þarna var þetta svo óumflýjanlegt og endanlegt. Ég var orðin þrítug og ekkert við því að gera héðan af. Doddi horfði á mig grenja í smá stund og sagði svo: "Þú ert ekkert að taka þessu neitt voðalega vel."
Nú er ég hætt að grenja og drekk afmæliskaffið mitt. Á tíma í nudd, á von á ættingjum í vöfflukaffi, kandidataviðtal, fund og út að borða. Þetta hljómar eins og fullorðinsdagskrá.
Ég fékk fullt af góðum gjöfum í afmælisveislunni minni. Sú sem skar sig þó óneitanlega úr er gjafabréfið í total body prothesur sem pókerklúbburinn gaf mér sökum aldurs. Ég get endalaust flissað þegar ég geng framhjá myndinni þar sem þeir standa allir bæklunarlæknarnir og Gunni Binni otar prothesunum framan í myndavélina;) Snilld.
Ragnari er aftur þakkað margfaldlega fyrir hið unaðslega sushi, Betu fyrir að skera það, Beggu fyrir pinnana, Dodda fyrir kökurnar, Ingvar fyrir ræðuna, Sápunni fyrir dansinn, Bóbó fyrir tónlistina og ykkur hinum fyrir það að mæta og gleðja mig með nærveru ykkar. Love!

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Útsvar

er skemmtiþáttur ársins!!!!!
HAHAHAHAHAHAHAHA það er reyndar alveg sjúklega fyndið. Skemmtiþáttur?! Ég læt það alveg vera.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Laugardagsblogg

Í gær fór ég og mátaði kjóla með Beautiful B. Það er ekki hægt að hafa betri félagsskap en hana þegar kjólar eru mátaðir. Við fórum í búð sem var voðalega eðlilegt að skipta við árið 2007, seinni part ársins 2008 hins vegar...... En ég á inneignarnótu þarna sem er að brenna upp í verðbólgunni. Þar heyrðist: "Þessi kjóll er mjög fallegur! Hann fer þér ekki!"
Þá flissuðum við mikið.

Í dag ætla ég að vera með afmælisveislu. Bara litla, eins og ég er vön. Ég held alltaf svo litlar veislur að ég missi sjónar á því hve mörgum ég hef boðið;) Hlakka sjúklega til að sjá skemmtiatriðið frá Sápunni sem ég veit að þær hafa verið að æfa í mánuð. Vona bara að Árdís fari ekki úr að ofan.

Líf og fjör.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Hvar er Óli Bjössi????

mánudagur, nóvember 10, 2008

RIP

Þingsetu Bjarna Harðarsonar hlýtur að vera lokið. Þetta bréfaklúður er bara of vandræðalegt til að ég höndli þetta. Ég engdist um af líkamlegum kvölum undir símaviðtallinu sem var spilað í kvöldfréttum RÚV um málið. Ekki misskilja mig, ég hef akkúrat engar taugar til Framsóknarflokksins en þegar einhver, GERIR ÞAÐ PERSÓNULEGA Á MINN HLUT, að gera sig að svo miklu fíflu opinberlega að ég þurfi að þjást við að sitja undir fréttinni, þá er mér nóg boðið. Ekki gera mér þetta! Ég er með tilfinningar!

Af afmælisvikunni

Í dag er nákvæmlega vika þar til ég verð 29 ára. Það eru kannski ekki allir sem myndu telja niður í það en ég geri það.
Sem minnir mig á að á 28 ára afmælisdaginn minn söng ég dúett með Joaquin Phoenix og var þessi mynd tekin af því tilefni.


Doddi mætti ekki á tónleikana því hann var í rosalegu strandpartý á meðan og óð í gellunum.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Af endurminningum


Var ég einhvern tímann búin að skrifa um það þegar ég var að keppa á skautunum?En um það þegar ég var sem mest að sitja fyrir?

Myndirnar tala þá sínu máli.

Af útrýmingu

Þetta er ekkert persónulegt frekar en venjulega. Ég eyði bara reglulega óvirkum linkum.

Af líkamsmati

Ég var að leita að kjól fyrir vinkonu mína um daginn. Sú er ákaflega, ákaflega smágerð. Ég var stödd í Sævari Karli og sá þar afar fagran kjól. Ég hélt uppi kjól í small og sá strax að hann myndi vera of stór á vinuna. Því hóaði ég í afgreiðsluskvísuna og spurði hana vongóð hvort þessi hefði kannski komið í XS. Það ískraði alveg í mér af kæti þegar ég horfði á hana mæla mig út frá toppi til táar og aftur til toppar með vanþóknun, svo stundi hún á útsoginu: "Þú þarft ekki extra small!"
Ég þekki það sjálf í mínu starfi að maður á aldrei að vera með fyrirfram ákveðnar forsendur. Þá enda ég alltaf á því að hafa rangt fyrir mér. Always keep an open mind!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Af skákmóti

Ingvar rétti mér miða í morgun og sagðist vilja komast á þetta skákmót, hver gæti skutlað honum? Huh! Teflir þú? spurði móðirin geðþekka. Já, sagði Ingvar, manstu ekki námskeiðið sem ég fór á? Þá rámaði mig reyndar í eitthvað skáknámskeið sem hann hafði fengið leyfi til að fara á í Hlíðaskóla en ég hafði verið búin að gleyma. En nú var svo komið að drengurinn vildi fara að etja kappi við aðra á skákvígvellinum.
Ég fékk lánaðan bíl hjá Baldri til að koma krakkanum upp í Grafarvog þar sem mótið var haldið í litlum búðakjarna. Voðalega fannst mér þetta fíflalegt þegar ég labbaði inn í verslunarkjarnann þar sem var búið að raða upp borðum og taflsettum í andyrinu. Mér fannst allir eitthvað voðalega undirmáls þarna í auglýsingamerktum fatnaði. Nú meistarinn skráði sig til leiks og svo fór gaurinn sem greinilega var allt í öllu þarna að ávarpa samkunduna. Hann byrjaði á því að bjóða forseta skáksambands Íslands velkominn og svo lýsti hann yfir ánægju sinni með hve margir af nýkrýndum Norðurlandameisturum og silfurverðlaunahöfum af Evrópumótinu (eða eitthað álíka) hefðu látið sjá sig. Uhhhh okei. Svo átti forsetinn að hefja fyrstu skákina og skák eins Norðurlandameistarans var valinn til þess. Forsetinn spurði strákpjakkinn hvort hann mætti leika öllum leikjum og sneri sér svo út í hópinn og sagði hátt: "Ég má leika öllum leikjum nema D7! (eða eitthvað álíka)" og uppskar hávær hlátursköll hjá viðstöddum skákforeldrum. Nema mér, því ég kann rétt svo mannganginn og veit ekki enn hvað var svona fyndið.
Fyrsti andstæðingur Ingvars var ábyggilega 15 ára og ég fann æðislega til með Ingvari. En svo byrjaði skákin og Ingvar virtist vera að standa í honum. Allavega kláruðust fullt af viðureignum á undan þeirra og mér fannst stórmerkilegt að fylgjast með Ingvari. Greinilega að hugsa á fullu marga leiki fram í tímann og muldraði fyrir vörunum einhverjar pælingar. En stóri gaurinn vann og engin voðaleg skömm að því, miklu eldri.
Á meðan verið var að raða upp í næstu umferð heyrði ég einn skákpabbann vera að lesa yfir syni sínum, pínulitlum pjakk með sykurlausan Svala. Hann var að segja honum eitthvað til, eitthvað sem ég skildi ekki, en var greinilega mjög mikilvægt. Í umferð 2 var pjakkurinn með sykurlausa Svalann andstæðingur Ingvars. Hann þurfti að krjúpa við borðið og með rörið í öðru munnvikinu. Skákin hófst og lauk í þremur leikjum. Með skák og mát litla pjakksins sem var ekki enn búinn með Svalann sinn. Nú voru farnar að renna tvær grímur á Ingvar. Hann kom til mín og muldraði að sennilega væri hann ekkert voðalega góður í skák.
Ég stappaði í hann stálinu og fór. Þú hringir bara í gemsann minn þegar ég á að sækja þig. Hafðu bara gaman af þessu!
En sjitt hvað ég vorkenndi honum. Ekki séns að hann fengi að hætta þó, enda bað hann ekki um það.
Þegar við sóttum hann svo 5 töpum og 1 sigri seinna með kók í annari og prins póló í hinni þá var hann alsæll. Gaman að þessu.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Af Tapas-barnum

En þangað hélt ég með 5 frábærum félögum mínum í kvöld. Þar sátum við og snæddum 18 réttaða máltíð og þusuðum yfir kreppunni, háum vöxtum, hækkandi afborgunum af lánum og fall krónunnar. Dejligt.
Þegar við stóðum upp frá borðinu þá sagði Jón Fannar: "Svo borgum við ekki og ef við verðum spurð þá segjumst við hafa þjóðnýtt matinn!"
Ég meina hann er fulltrúi sýslumanns á Ísafirði.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Af félagslegum afglöpum

þegar ég hitti fullorðið fólk, nú undir lok ársins 2008, sem dettur í þann gírinn í miðjum samræðum að herma eftir Ragnari Reykás, þá deyr eitthvað innra með mér. Ég held að það séu heilafrumur sem drepast þegar heili minn verður fyrir svo grófu ofbeldi af hálfu viðmælandans.

Það er gott

að vakna miðvikudaginn 5. nóvember 2008. Það eru margar ástæður fyrir því, ein af þeim er sú að ég er í vaktafrí og er að sötra kaffið mitt í rólegheitunum í sófanum heima með fartölvuna. Ég elska þessi móment, allur dagurinn framundan opinn fyrir öllum mínum hugdettum. Yndislegt.
En það er annað sérstakt við þennan dag sem kætir mig. George W. Bush er ekki lengur forseti Bandaríkjanna mestu hryðjuverkaþjóðar heimsins, amk undir hans stjórn. Það er gott að vakna upp við það að í hans stað er geðþekkur demókrati orðinn valdamesti maður heims. Sögulegt, segja menn, því maðurinn er þeldökkur. Sjálf er ég svo fordómalaus að ég var ekki búin að taka eftir því að maðurinn er svartur. En ég hef von um bættan og breyttan heim undir hans stjórn og vona að demókratarnir haldi republikönum sem mest utan við helstu valdastöður. Þeir hafa sýnt sig og sannað með þeim hætti að sumir skaðar verða aldrei bættir. Þeirra tími er liðinn.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Ég hef að vel ígrunduðu máli

ákveðið að afskrifa skuldir mínar. Ég er búin að hugsa þetta og komst loks að þessari niðurstöðu og er sannfærð um að hún sé hin eina rétta. Ég ætla að afskrifa allar skuldir mínar við bankana, ríkið og Avant. Þá er það ákveðið hér með. Það væri bara ónæði af því að verða gjaldþrota og leiðinlegt afspurnar og því hef ég ákveðið að fara þessa leið. Mér líður bara strax betur.

Afsakið á meðan ég æli!

Djöfulsins viðbjóðsspilling og óþverri á óþverra ofan. Þjófar, bófar, lygarar og svikar í einum hrærigraut að verja eigin hagsmuni, ættingja og vina. Og við hin borgum bara meira. Takk fyrir það!
Ég er raunverulega búin að vera pollróleg og látið mig þetta lítið varða en nú langar mig allt í einu að öskra.

laugardagur, nóvember 01, 2008

Af klukki.

Hinn háaldraði, nýlega þrítugi, Vilhjálmur Stefánsson hefur klukkað mig. Ég tek áskoruninni enda aldrei verið talin ræfill.

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Bæjarvinnan í Ólafsfirði
Frystihúsið á Dalvík
Gellunestið á Akureyri
Leikskólarnir Fagrihvammur, Hagaborg og Sólhlíð, án efa skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Leikskólabörn eru dásamlegar mannverur!
2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
Englar Alheimsins
Nói Albínói
Stikkfrí
3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Reykjavík
Stokkhólmur
Svarfaðardalur
Skagafjörður
3.a Einn staður sem ég myndi aldrei búa á:
Reykjanesbær
4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Bandaríkin
Kúba
Króatía
Kýpur
5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Always Sunny in Philadelphia (BESTU ÞÆTTIR EVER!!)
Arrested development
Scrubs
Sex and the city
6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Linkarnir mínir
mbl
eyjan
Feisbúkk
7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Sushi
Pizza af Horninu
8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
Frá því ég hætti að lesa barna og unglingabækur sem ég las stundum þangað til þær hrundu úr kilinum hef ég ekki lesið eina einustu bók sem ég hef fengið löngun til að lesa oftar en einu sinni.
9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
Heima hjá mér með Gaggsa, Skessu og Dodda feita.
Með Gaggsa, Skessu og Dodda feita í sólinni á Kýpur.
Hvergi annars staðar eiginlega......
10. Fjórir bloggarar sem ég klukka (þ.e. þurfa að gefa upp samsvarandi gagnslausar upplýsingar):
SiggiSiggiBangBang
B.
SiljaSt.
Hnakkinn.