Ég er með svakalega sprautuphobiu. Ef þú lest þetta og hugsar: Læknanemi með sprautuphobiu, fyndið. Þá alveg róleg/ur. Þú ert ekki fyrst/ur með djókinn. Hahahaha bwöhhhhhh. Ég hef reynt að analysera phobiuna til að komast yfir hana. Þetta er fullkomlega órökréttur ótti og ég skil það þegar ég hugsa um það. En þegar á hólminn er komið og nálin stingst í gegnum húðina og fer inn í líkamann minn, þá dett ég út. Þetta er samt svo frumstæður ótti að hann á rétt á sér. Þeir sem óttuðust það mjög mikið, að stinga sig á einhverju, þeir lifðu af á dögum hellisbúanna, þegar það að stinga sig á einhverju gat leitt til dauða. Þeir sem voru hvað hræddastir við kóngulær voru ekki að láta svörtu ekkjuna stinga sig. Og þeir lofthræddustu, þeir voru ekki að príla í einhverju þverhnípi að nauðsynjalausu. Það er meira segja hægt að sjá hvernig óttinn við álit annara er tilkominn. Því ef ættbálkurinn útskúfaði einhverjum þá var hann svo gott sem dauður. Og með þessu móti má sjá hvernig ótti Homo Sapiens hefur í raun bjargað lífi hans svo lengi sem tegundin hefur verið til. Þannig að í raun og veru er ég kúl og þessir óttalausu eru úrkynjað lið sem slapp á einhvern ótrúlegan hátt í gegn um the survival of the fittest.
En áðan þá ætlaði ég að setja í mig eyrnalokka sem ég keypti mér af því að mér þóttu þeir flottir. Ég er með göt í eyrunum frá því í frumbernsku en ég hef ekki verið með eyrnalokka frá því ég setti í mig eyrnalokka á fermingardaginn. Þegar ég ætlaði svo að stinga eyrnalokkunum í gegn, þá kom upp gömul, velþekkt velgja og fæturnir urðu óstöðugir. Kaldur sviti spratt fram á ennið og ég þurfti að setjast niður.
Þá er það bara þannig að líkami minn vill ekki láta stinga neinu í sig. Þá setur hann af stað massa varnarkerfi. Látum gelluna missa meðvitund áður en hún nær að koma þessari vitfirrtu hugmynd sinni í framkvæmd. Mjög advanced hugur þarna á ferð. Ég vorkenni ykkur hinum sem eru með svo varnarlausa og silalega huga, að þeir leyfa ykkur að ganga með eyrnarlokka eins og ekkert sé. Bara svona rétt eins og að það geti ekki drepið ykkur. Ussssssss.