luxatio hugans

awakening

fimmtudagur, maí 31, 2007

Læknisfrúin

Hann Doddi litli klárar kandidatinn í dag og verður læknir. Því upplýsist það hér með að ég hef kallað mig læknisfrú í eitt ár án þess að vera í raun löggild læknisfrú. En pöpullinn veit það ekkert og nú er ég orðin læknisfrú svo..... up yours!
Á morgun verð ég svo sjálf afleysingalæknir í Hveragerði. Guð hjálpi Hveragerðingum og nærsveitamönnum.
Í gær prófaði ég svo að vera sjúklingur. Ákvað að detta til læknis vegna ógreinilegra þreytueinkenna, hey það er ekki eins og ég hafi hringt á þyrluna, og mæði. Þá er mín bara með blóðþrýsting 160/105 sem er vægast sagt ekki spes þrýstingur fyrir 28 ára gamla konu og óeðlilegt EKG. Ég veit fyrir víst að ég var með eðlilegt EKG fyrir ári þegar við vorum að leika okkur á því að lesa úr okkar eigin EKG á medicine kúrsinum. Þannig að í samráði við cardiolog sem var þarna í húsinu var ákveðið að ég færi í hjartaómskoðun til að útloka mögulega hægri hjartabilun. Svo var gerður allur andskotinn annar, spirometria, lungamynd, blóð og þvag. En hvað sem er þá verð ég allavega að ná þessum þrýsting niður. Nenni eiginlega ekki að fá stroke. Þannig að ég á skilið að detta í nudd finnst mér. Já mér finnst það.

Where the hell is Matt?

Ohh ég missti af tækifæri lífs míns þegar ég gleymdi að fara og dansa með Matt á Ingólfstorgi í gær. Ég var búin að lofa Ingvari að fara og setti þetta í reminder í símanum mínum því ég er orðin óvön lífi meðal manna og er föst í ákveðinni rútínu sem ekki er mennsk. Alla vegana í ofurmömmupakkanum við að bæta upp glataðar samverustundir var ég auðvitað ofan í sundlaug í gær þegar aumingja litli síminn minn reyndi að minna mig á dansinn með Matt. Því brást ég Ingvari og ekki síst sjálfri mér.
Þeir sem gengu með mér í Menntaskóla og þekkja mig og Berglindi vinkonu mína hafa óhjákvæmilega þurft að upplifa það þegar við Begga dönsuðum Tjúll og hó. Dans sem er ferlega ljótur en sjúklega gaman að dansa, ekkert ósvipaður dansinum hans Matt, en flottari. Sérstaklega við þýska megahittarann "Weil ich ein Mädchen bin". Mjög týpískur menntaskóladjókur. Bara menntskælingum þætti úber fyndið að spila þýskan hittara í öllum partýjum. En allavega.... af því að ég og Berglind erum SVO ruglaðar að það hlýtur bara að vera einhvers konar met, þá skil ég eiginlega ekki af hverju við fengum ekki þessa hugmynd. Að dansa tjúll og hó á ýmsum stöðum og setja það á netið. Og fá tvær milljónir heimsókna. Guð veit að við höfum tekið af okkur módelmyndir á ýmsum stöðum heims. But well. Þetta er mitt glataða tækifæri til að verða heimsfræg. Allir eiga sitt. Þetta var mitt.

Hér fyrir ofan er lagið hennar Mönu ef einhver hefur lyst á því að detta í tjúll og hó í vikulokin. Líf og fjör.

Hlutir sem eru algjörlega off....

Tommi, vinur Berta og Sæma, skrifar mjög góða grein í Moggann í dag um reykingabann á veitinga- og kaffihúsum sem í dag tekur gildi. Kjarninn er, svo ég vitni nú í hans orð, að þetta snýst alls ekki um boð og bönn heldur rétt hinna reyklausu. Nákvæmlega það sem ég er búin að vera að tauta í mörg ár. Við sem ekki reykjum gerum engum neitt með nærveru okkar en erum bara vinsamlega að biðja um að verða ekki fyrir skaða með því einu að flippa svolítið og detta inn á kaffihús í einn Latté.

Hlutir sem eru algjörlega off: Reykingar!

þriðjudagur, maí 29, 2007

Ég er búin með 5. árið.

sunnudagur, maí 27, 2007

Hópeflið

Eru ekki allir að tala tungum í dag?!

Fóstbræður - Hvað á að gera við afa?

Ohh þetta er fyndnast í heimi:)
Verst að ég fann ekki sketsinn um myndbandanördin. "Þetta er Knútur fyrir fjórum árum síðan og ÞAÐ ER GAMAN!!"

Hlutir sem eru algjörlega off...

Gæti orðið fastur dagskráliður á ólundarbloggsíðu þessari.
Það fyrsta sem verður nefnt eru einkanúmer á bifreiðar. Algjörlega og absolutely off. Hvort heldur sem það er í nafnafasanum; JÓI, EDDA o.s.frv eða misgáfulegir orðaleikir eins og BIG TOY, POWER eða hvað annað. Þetta er bara dauðanum hallærislegra. Ég fæ aumingjahroll og mér líkar ekki að vera með aumingjahroll. Það er tillitsleysi af fólki að bjóða alsaklausum stúlkum, eins og mér sjálfri, upp á aumingjahroll á góðviðrisdegi. Ég hef nóg annað á minni könnu.

föstudagur, maí 25, 2007

Góðu fréttir

dagsins 25. maí 2007 eru nokkrar. Í dag var síðasti verknámsdagur 5. ársins. Nokkrir dagar í lestri og svo er 5. árið búið. Er þetta grín?
Hinar góðu fréttirnar eru þær að Gyða systir og Kristín Þóra munu leika mæðgur í Óvitunum:) Ég get ekki beðið eftir að fara á frumsýningu. En hún er í haust svo ég verð að vera róleg eitthvað áfram. Já líf og fjör.

+/- ávinningur

Ég hélt fyrirfram að ég yrði svo sjúklega góð í kvenna og barna af því að ég hefði í
1. lagi gengið með og fætt börn
2. lagi vegna þess að ég á börn
Hins vegar voru meðgöngur mínar og fæðingar alveg yfirgengilega, fullkomlega eðlilegar og inngripalausar og börnin mín hafa verið heilbrigð. Þannig að ég veit sama og ekki neitt. Mín þekking umfram aðra nema er engin. Hins vegar skil ég það betur en nokkru sinni að þetta er svo langt því frá sjálfsagt. Þetta er svona hlutur sem ömmur segja og maður samsinnir en nú skil ég það. Ég er þakklát og klökk.

Opinber húðstrýking

Ég bendi öllum áhugasömum á að við bekkjarfélagarnir ætlum að láta húðstrýkja okkur opinberlega á Austurvelli klukkan 16.00 í dag til að snúa við þessu ranglæti sem viðgengst á þessu landi. Þessum drápum verður að linna og við ætlum að sýna það í verki með þessari húðstrýkingu að við erum tilbúin til þess að standa við stóru orðin. LÁTIÐ SJÁ YKKUR!!

þriðjudagur, maí 22, 2007

Einelti?

Þegar við Doddi tölum um krakkana okkar þá köllum við þau iðulega Gaggsa og Skessu. Ingvar er Gaggsi, Ester er Skessa. Þetta á sér í raun rökréttar skýringar. Tengdapabbi heitir Ingvar. Þegar hann var 16 ára fæddist yngsta systir hans, hún Hólmfríður sem við köllum Fríðu. Fríða gat ekki sagt Ingvar og sagði alltaf Gaggi. Hún kallar hann enn Gagga. Nú svo þegar Ingvar minn fæddist þá var Gaggsi einhvern vegin rökrétt smækkunarmynd orðsins Gaggi, eins og í spænsku. Anna og Aníta, Eva og Evíta. Mjög rökrétt. Þess vegna köllum við hann Gaggsa dags daglega en þegar við uppnefnum hann þá köllum við hann Gaggsi Paxi.
Nú þegar Ester svo fæddist og ljóst var á fyrstu vikunni hvurslags ógurlegt skap var í dömunni þá fórum við smám saman að tala um Skessuna Ester eða bara Skesster. Skesster þróaðist svo smám saman aftur í bara Skessa því það er þjálla.
Þetta er mjög sennilega barnaverndarmál.

Causin Hab

tók sig til og gifti sig á föstudaginn var. Þetta eru að sjálfsögðu jákvæðu fréttir dagsins 22. maí 2007. Reyndar verð ég að segja að þetta er hálfloðið allt saman. "Eiginmaðurinn" heitir Gummi. Hann hef ég hvorki séð né heyrt. Á einhvern óskiljanlegan hátt er hann búinn að vera "upptekinn" eða "erlendis" alltaf þegar ég hef mætt í fjölskyldugathering og hef ég gert óspart grín að Hrafnhildi fyrir að eiga ímyndaðan kærasta. Enda þegar ég bar mínum raunverulega eiginmanni, Þóroddi, fréttirnar þá spurði hann: "Hvað ætlar hún eiginlega að ganga langt?! Leynibrúðkaup með ímynduðum eiginmanni?!"
Nei ég er að djóka. Ferfalt húrra fyrir Causin Hab og Gumma. Megi þau lifa vel og lengi í skýjaborgum og eignast marga loftkrakka.

Vinsældir

Lesendum Liðhlaups Hugans virðist líka ólund. Heimsóknum fjölgar og allt er að gerast þegar geðvonskan er sem mest. Það er áhugavert.
Einu sinni lifði ég eftir mottóinu: "Þegar fíflunum fjölgar, líttu þá í eigin barm" Það er voða krúttlegt mottó eitthvað. Í dag er það hins vegar: "Forðastu fíflin" og ég get ekki séð að það virki neitt verr. Sumir eru bara andskotans fífl og þó maður tæki litningana úr sjálfum sér og raðgreindi þá, þá myndi það ekki breyta nokkru. Fíflin eru fífl fyrir því.

sunnudagur, maí 20, 2007

Tilvitnun





















Nú er rétt að vitna í óborganleg orð Sverris Maestro Jónssonar þegar hann mælti svo spekingslega: "Á þessari mynd sést að barnið kemst ekki út. Það er augljóst............ því fylgjan er fyrir."

Óandlegheit

Ég á tvær vinkonur sem fara í ræktina og þykjast vera að lyfta en eru í raun að táldraga unga drengi. Mér finnst það ekki sérlega andlegt af þeim.

ROAR!!

Ljónynjan í Þórshamri hafði samband í gær og benti mér vinsamlega á það að Þórgunnur er að fara að útskrifast úr menntaskóla 26. maí.
Það verða því góðu fréttir dagsins í dag.
Aðrar góðar fréttir dagsins eru að ég var mætt í Múlann á undan Hönnu Viðars. Naumlega, en samt á undan. Hanna er tvíburasystir hins alræmda heftara, Höllu Viðars, svo þetta hlýtur að teljast góður árangur hjá mér. Reyndar held ég að Hanna sé að lesa núna á meðan ég er að blogga........

laugardagur, maí 19, 2007

Hey! Ég er að einbeita mér við lesturinn....

en hins vegar datt ég niður á þessa stórskemmtilegu lesningu hjá Villa Stebba um Gallup könnun sem hann lenti í. Þetta minnti mig reyndar á tíma í lífi mínu þar sem ég get ekki haft minna fyrir stafni. Þá var ég genginn framyfir með Ingvar. Skólinn búinn og allir vinir mínir að vinna. Doddi auk þess að vinna frá 6-18 alla daga og var hundleiðinlegur. Þá hringir einhverju sinni Gallup og biður um Þórodd í símann. Ég segi að hann sé ekki heima en ég SKULI ENDILEGA SVARA KÖNNUNINNI. Hehehehe okei mér leiddist pathologiskt greinilega. Konan á hinni línunni varð svo hvumsa, enda ábyggilega aldrei fengið þessa beiðni áður, og sagði vandræðaleg að það yrði að vera sá sem hafði verið dreginn í úrtakinu sem svaraði. Þannig að ég fékk ekki að svara. Og fór æðislega sorrý að horfa á 12 videospóluna þann daginn. Jamms.

p.s rétt í þessu hnerraði ég í troðfullri lesstofunni. Enginn sagði: guð hjálpi þér. Allir á lesstofunni eru vont fólk.

Heldur en...

Doddi er með krakkana í húsdýragarðinum því Ingvar þráði það meira að komast í húsdýragarðinn á einhverjum Stöð 2 degi, heldur en nokkuð annað í lífinu. Hamingja hans hefur hreinlega staðið og fallið með þessu síðustu daga. Við foreldrarnir, eldri og vitrari, hugsuðum hins vegar að enginn dagur gæti mögulega verið verri til að fara í húsdýragarðinn eins og þegar eitthvað fyrirtæki býður upp á blöðrur og pylsur og landinn tryllist úr spenningi. Eins og sakbitnum foreldrum sæmir gerði Doddi hins vegar eins og drengurinn vildi. Nú var ég að fá sms frá Dodda:) Búinn að standa í einhverri pylsuröð í óratíma og allt búið þegar kom að þeim. Ingvar búinn að vera í röð í fallturninn í 40 mín og röðin er hálfnuð. Og ég sem var að vorkenna mér að vera föst í postpartum complicationum. Heldur vil ég postpartum complicationir en að standa í Stöðvar 2 pylsuröð any time. Sko þarna kom önnur jákvæð staðhæfing, alveg óvænt. Ég er hreinlega að springa úr gleði hér.

Hækkum gleðistuðulinn

Þarf ekki að koma glaðleg, jákvæð færsla á þessa vefsíðu svo ég fari nú að fá einhverja lesendur á síðuna sem ekki eru í sjálfsvígshugleiðingum.

Ég get talið upp lista jákæðra frétta:

1. Ég er að verða föðursystir. Nú þegar bólgan eftir kjaftshöggið sem það var er hjöðnuð þá eru það vissulega ákaflega gleðilegar fréttir. Ég mun ofdekra barn það sem um mitt fyrsta barnabarn væri að ræða.
2. Gyða systir fékk hlutverk í Óvitunum fyrir norðan. 15 voru valdir úr hópi 470 umsækjanda. Þar tók hún uþb fjórfaldan clausus í nefið. Mjög vel gert. Hún mun leika þar við hlið minnar heittelskuðu Kristínar Þóru, nýútskrifaðrar leikarastúdínu. Það verður ekki amalegt fyrir Leikhúsklúbbinn Lárus að fara og sjá það. (p.s auk þess fæ ég hálfgerða lækningu við andlegu meini sem rekur sig aftur til 1989 þegar tvær bekkjasystur mínar léku í Óvitunum í Þjóðleikhúsinu). Svo eru aðrar góðar fréttir af Gyðu sys, en hún veit þær ekki sjálf ennþá svo það verður bara uptodate seinna.
3. Ég átti brúðkaupsafmæli 13. maí. Ég fékk MKM stígvél frá eiginmanninum, súkkulaðiköku frá Árdísi, sem skilur hvað það kostar að vera gift í eitt ár, rósavönd frá Lydiu og matarboð frá Ólöfu og Frey. Hey Freyr! Skilaðu bókinni! Þú ert að klúðra hálfmaraþoninu fyrir mér.
4. Ég á nýjan bíl. Fagur er bíllinn sá og hlaðinn aukabúnaði. 7 manna, leður, fjarstýrðar hurðir, DVD, svartar rúður, loftkæling. Á ég að halda áfram. Nei það er best að vera eigi raupsöm.
5. Eva rokkari eignaðist lítinn dreng um daginn. Ég var fyrst allra úr rokkklúbbnum til að sjá hann. TVISVAR! Ég hélt að Magga St. færi að grenja þegar hún fattaði það. Og já Auja! Rautt er best!
6. Ríkisstjórnin féll og better yet, við losnuðum við Framsóknarflokkinn og Siv úr heilbrigðisráðuneytinu.
7. Ég er orðin sjúklega góð í Sudoku. Doddi þolir ekki tilhugsunina um að ég sé betri en hann í því.
8. Ég held að ég sé fegurri en ég hef nokkru sinni verið fyrr.

Já gott fólk. Ef þetta er ekki jákvæðni þá má endurskilgreina jákvæðni fyrir mig. Því þá skil ég ekki hvað orðið þýðir. Líf og fjör people.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Aumkunarvert

Aumingja Björn Ingi. Það er það eina sem mér dettur í hug þegar maður les þessi skrif hans. Vesalings, vesalings Björn Ingi.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Ég tryllist

og ekkert minna en TRYLLIST ef Framsókn sest í ríkisstjórn. Þá getum við alveg hætt að tala um það að við búum í lýðræðisríki. Þegar flokkurinn fær ekki fleiri atkvæði en telur frambjóðendanna og maka þeirra, þá er þjóðin að segja að við viljum ekki hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Mér gæti ekki verið meira drullusama þótt þeir ætli að fækka ráðherrastólunum þeirra. Þetta er bara hneisa. En ég verð að viðurkenna að ég hef mikla trú á Geir. Ég trúi þessu hreinlega ekki upp á hann. Ennþá. En ef af þessu verður þá hefur D-listinn séð sitt síðasta atkvæði frá mér.

Græn borg

eða græn skref eða eitthvað grænt. Frábært framtak hjá borginni. Það verður ekki af þeim tekið. En fáránlega er samt erfitt að komast leiðar sinnar á grænan hátt í þessari borg. Ég hef reyndar tuðað yfir þessu áður en þetta er bara óþolandi. Við erum bíllaus núna síðan Doddi klessti Vollann góða og nýji bíllinn er í gám á Atlantshafinu. Þannig að við erum labbandi eða hjólandi eða ónáðandi vini og vandamenn.
Landspítalinn er í svona 500 m frá heimili mínu í loftlínu en vegna viðurstyggilegrar, rammgirtrar hraðbrautar sem liggur í gegnum hverfið mitt, þarf ég að taka stóran sveig til að komast á hjóli eða gangandi á spítalann. Það eru tveir sveigar í boði, annar sýnu minna fáránlegur en hinn. Ég gæti verið 3 mín á hjóli á spítalann en þarf þess í stað að hanga svona 3-4 mínútur að bíða eftir að komast yfir umferðarfljótið. Það er ekki hægt að stytta sér leið með að vera gangandi. Sömu leiðir í boði, sama bið að komast yfir götuna.
Jæja svo þarf ég að komast í dauðans Ármúlann sem er svo leiðinlega staðsett lesaðstaða að það hálfa væri hryllingur. Það skotgengur að hjóla þessa stuttu spotta sem ég kemst óáreitt en svo er það endalaus helvítis bið á gatnamótum.
Nú svo datt mér í hug Strætókerfið um daginn. Þá var ég í Múlanum seint um kvöld, bíllaus og kalt úti. Ég er uþb. 40 mín að labba heim svo það er nú ekkert svakalegt en var með þunga tösku og ákvað að tékka á bus.is. Ég fékk nokkra valmöguleika. Á þeim öllum þurfti ég að labba í 20 mín í strætó, fara með strætó á hlemm, bíða, skipta um strætó, og labba frá stoppistöð heim. Sjúklega frábær ferðamáti. Þetta voru meira en 40 mín í þessum valmöguleikum sem ég fékk.
Ég er ekki sjá þessa grænu leið í framkvæmd, svo ég leyfi mér nú að vera önug.

sunnudagur, maí 13, 2007

Arghhhh!!!

Þegar ég fór að sofa í nótt var Siv Friðleifsdóttir ekki á þingi. Þegar ég vaknaði í morgun var hún komin á þing. Sem hlýtur bara að segja manni það að nætur eru góðar en morgnar eru vondir.

föstudagur, maí 11, 2007

Heilræði dagsins

Rhesus neikvæðar konur ættu að velja sér rhesus neikvæða menn.

Sandkassaslagur

Einhverra hluta vegna detta mér í hug smákrakkar með hor í sandkassa þegar ég les þetta.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Væntingar frh....

Okei You Tube virkar meiriháttar vel;)
Allavega hér er myndbandið sem átti að fylgja með sögunni af Gunna um daginn en vildi ekki koma inn. Svo eins og sannur Íslendingur reyndi ég að pósta 3 x. En well. Fyndið er það samt.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Ef væri ég .........

Það er sjúkleg ólund í mér. Ég vildi óska þess að ég væri fíll með ufsilon í. Fýll. Þetta er sjófugl af mávakyni. Hann er þeim eiginleikum búinn að geta ælt lýsi yfir óboðna gesti sem hætta sér of nærri honum eða ungum hans. Akkúrat núna vildi ég geta ælt lýsi yfir þá sem eru að abbast upp á mig á lesstofunni. Það væri nú svolítið flott. Hvað segja Gunnarson Ö. et al um það??

HEY HEY

I saved the world today!!

Stundum líður mér eins og Annie Lennox

Væntingar

Ég þrái það að einhver sjúklega fyndinn verði á vegi mínum. Með einum eða öðrum hætti. Má vera vinur, ættingi, skólafélagi, kennari, leynifélagi, rokkklúbbsgella eða einhver í fjölmiðlum. Bara að einhver fyndinn komi mér til að hlæja. Á næstu mínútum helst takk. Ég þarf á því að halda.
Kannski ég fari í þetta indverska hláturjóga og æfi ljónið í 20 mín á dag. Reyndar hef ég aldrei hlegið meira að neinum fréttaskýringaþætti eins og þegar einhver hláturjóga gella kom í Kastljósið. Þetta bara svínvirkar. Maður óhjákvæmilega hlær.


p.s. Rétt í þessu labbaði Gunnar Þór Geirsson framhjá borðinu mínu og ég sagði: "Gunni, segðu mér eitthvað fyndið eða ég drep þig!" Gunni klórar sér í hausnum og óhjákvæmilega er pressa á honum með lífið að veði en honum datt ekkert fyndið í hug. Skömmu seinna kom hann aftur og sagði: "what are you sinking about?" og ég hló. Því það var fyndið.

asdf

asdf

sunnudagur, maí 06, 2007

FORMA blogg

Tékkið endilega á þessari auglýsingu frá FORMA samtökunum. Okei nú ætla að ég að nöldra. Stelpan sem stendur í speglinum og grætur af því að hún er svo feit ER MJÖG EÐLILEGA ÚTLÍTANDI!!! En skilaboðin eru (eins og ég skil þau) að grindhoraða stelpan sjái sig sem feita. Er þá verið að segja öllum stelpum sem eru vaxnar eins og stelpan í speglinum að þær séu feitar? Hvaða rugl?! Og hverskonar herferð getur þetta orðið fyrir bættum viðhorfum sem byggist á svona brengluðum viðhorfum? Nei, ég er ekki hrifin af þessu. Þetta er bara eitthvað svo fáránleg hugmynd að það hefði aldrei verið hægt að gera hana vel. Ekki einu sinni þó það hefði verið valin stúlka með BMI yfir normal gildi. Það hefði bara verið fáránlegt líka.

laugardagur, maí 05, 2007

Í lokin

Svo gleymdi ég að taka það fram að allir eru vondir við mig og enginn er góður við mig.
Og þar hafið þið það.
Djöfull er sweet að sökkva sér svona í sjálfsvorkun og marinerast þar. Ég var búin að gleyma því hvað það er mikið climax.

Dauði og djö........

Ég er að reyna að lesa og það gengur ekki vel sökum einbeitingarskorts. (Nota bene það skortir ekkert á gáfurnar ef einhver illgjarn hefur hugsað það!) Þá vill það gerast að netið fær aðdráttarafl sem erfitt er að yfirvinna. En akkúrat núna er netið leiðinlegt. Allir á því eru ógeðslega leiðinlegir, ófyndnir, ófrumlegir og umfram allt VIÐBJÓÐSLEGA LATIR!! Enginn nennir að blogga. Enginn er á msn. Fréttirnar eru óáhugaverðar og leiðinlegar. Engin dramatísk skúbb. Huh!!
Í ofanálag eru engir bekkjafélagar í Ármúlanum sem svo sannarlega er grútFúli-Múli í dag. Ég er í massívri sjálfsvorkun. Og til að kóróna hörmungina.......... þá á tapaði helvítis Man. City þessum djöfulsins leik. Vel gert strákar. Þið eruð vel að titlinum komnir: Það lið sem fæst mörk hefur skorað á heimavelli frá upphafi ensku úrvalsdeildarinnar.
Svo á ég ljóta flíspeysu og ég verð að lesa í flíspeysu því ég fæ alltaf kuldahroll í beinin þegar ég er að læra. Don´t ask.
Gæti líf mitt verið meiri eymd?!

Star Trek syndromið

Ég komst að því í gærkvöldi að bloggið mitt á aðdáendur sem eru svona í stíl við Star Trek fans. Geta farið með færslur úr blogginu mínu og vita hvenær færslur hafa verið teknar út og svona. Það þarf nú að vera þokkalega obsessed til þess. En ég er hrifin af þessu. Mér finnst að blogginu mínu sé sýnd tilhlýðileg virðing með því að eiga obsessed aðdáendur. Þannig að þetta er bara flott hjá þeim. Áfram á þessari braut. Og svo vil ég heldur ekki styggja þetta lið. Þau ætla að halda upp á 1. árs brúðkaupsafmælið mitt. Reyndar drógu þau miða sem skikkar þau til að gera það en samt......... betra að styggja þau ekki.

föstudagur, maí 04, 2007

Heiftin og ástleysið

Ég á tvær vinkonur sem þekkja ekki ástina. Þær þekkja lostann enda eiga þær sitthvoran, bráðskemmtilegan og sprellilifandi minnisvarða um lostann sem hefur heltekið þær. En þær þekkja ekki ástina. Það er sorglegt að vera hamingjusamlega gift og umvafin ástinni í sinni tærustu mynd, daglega, þegar þær eru að veslast upp af ástleysi vestur í bæ. Heiftin í garð samborgara sinna sem auðnast að elska og vera elskaðir fer sívaxandi. Stundum verða þær svo blindaðar af heift að menn eru dauðir í þeirra augum. En þær elska hvora aðra og sjóða saman fisk reglulega. Og þær eru umvafðar af heilbrigðum, góðum konum. Ég hugsa að það sé það sem bjargar þeim frá varanlegri sturlun og eilífðar glötun.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Haukur Heidar (Dikta) with Jon Olafs - Breaking The Waves

Þetta er Hauxi bekkjabróðir með einhverja þá alflottustu útgáfu af nokkru lagi sem ég hef heyrt. Ég vona að hann verði sjúklega frægur því þá ætla ég að selja óhreina servíettu sem hann notaði á ebay. Og verða rík.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Já blessuð bernskan

Þar sem ég sit og les barnalæknisfræði, já og kafla um aðskotahluti í koki, þá rifjast upp fyrir mér minning frá Svíþjóð. Þá hafði drengur einn sem ég var með á leikskóla troðið perlum upp í nasirnar á sér. Að dreif starfsmann sem sá hvað hann var að gera og byrjaði að reyna að ná þeim út og tókst ekki. Því var farið með drengstaulann á sjúkrahús. Ég man eftir mikilli angist hjá mér í tengslum við þennan atburð. Sjúkrahús voru skelfilegur staður þangað sem fólk fór og dó. En þessi bjáni sneri aftur og varð hetja hvunndagsins. Í kjölfarið hófust mikil áhættuatriði hjá öðrum strákum á leikskólanum þar sem þeir léku sér að því að tylla einni perlu alveg fremst í nösina á sér og kippa henni svo út aftur. Ég og fleiri ábyrgar stelpur fylgdumst með þessum glæfraleik með hryllingi og spurðum drengina hvort þeir myndi ekki hvað hefði komið fyrir þann síðasta sem lék þennan leik. Svo höfum við eflaust klagað. Já snemma hefst áhættuhegðun og spennufíkn.
Annað sem ég man eftir er að hafa gert mér upp hita. Þá lagði ég ennið á ofn í herberginu mínu og fór svo fram og spurði mömmu hvort ég væri með hita. Hún tók á enninu sem var heitt og sagðist halda það og sendi mig inn í herbergi aftur með hitamæli. Í stað þess að stinga honum upp í rassgatið tyllti ég honum bara augnablik á sama ofn og hafði gefið mér ennishitann. Nú og svo þegar hitamælirinn sýndi hæfilega háa tölu fór ég fram með mælinn aftur. Og fékk frí í skólanum. En það er nú gott að mamma getur ekki skammað mig fyrir þetta lengur og einnig er gott að hafa létt á hjartanu þessu óheiðarlega leyndarmáli. 10-11-12.