luxatio hugans

awakening

föstudagur, október 31, 2008

Af gleði

Þegar Frank Hvam lýsti umskornu typpi eins og auga án augnloks þá hló ég upphátt, lengi.

fimmtudagur, október 30, 2008

ÍSLAND Á EM!

Ég er búin að fullyrða á þessu bloggi í marga mánuði að íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sé á leið á EM í Finnlandi 2009. Nú er Evrópumótið í höfn og það var dásamleg stund að vera á Laugardalsvellinum í kvöld þegar stelpurnar tryggðu sér sætið á mótinu. Mar bara klökknaði og læti. Og hverjir verða búsettir í Sverige í ágúst 2009? Svo ég segi við alla mína ættingja sem ætla að koma og sjá Ástu frænku okkar spila á EM: "Kaffi í Gautaborg fyrir mót?" Svo tekur maður bara Cryslerinn og ferjuna yfir til Finnlands, tjaldar bara eða eitthvað. Það er allavega alveg á kristaltæru að ég mæti á þetta mót. Ég vona bara að Tólfan mæti líka. Djöfulsins stemning í Tólfunni. Snillingar!
Og Ásta þú ert snillingur! Til hamingju með þennan sögulega áfanga.


Sjáið Fimmuna! Flottust!

föstudagur, október 24, 2008

Ester Helga 4 ára í dag






Litla sætasta stelpan mín er 4 ára í dag.
Hún fékk að opna marga pakka í morgun áður en hún fór í leikskólann, hún var glöð með allt en Sollu Stirðu búningurinn frá Lydiu var augljóslega hittari dagsins. Lydia með stöngina inn!

fimmtudagur, október 23, 2008

Af útvarpi

Ég hlusta MJÖG mikið á útvarp á leiðinni til og frá Selfossi þessa dagana. Umræðan er farin að fara æðislega í taugarnar á mér. Ég nenni þessu ekki lengur. Mér finnst Geir ennþá flottastur og langar enn að setja Hannes Smárason í gapastokk og er ekki að meðtaka neinar upplýsingar sem sveifla þessum skoðunum mínum. Mér er farið að leiðast þetta raus.
Ég verð þó að minnast á hve gáttuð ég er á hneikslan fólks á þessum tæpu tveim millljónum nýs Kaupþingsbankastjóra. Mér þykja tvær milljónir engin ósköp í þessu havarí sem nú er í gangi. Það þyrfti að halda hlaðinni tvíhleypu upp að enninu á mér til að ég tæki að mér bankastjórastöðu í dag.
Kannski er ég heimsk en hvernig í andskotanum tekst fólki að túlka þetta símtal Árna M. og Darling á þann veg að Árni hafi sett þessa atburðarrás af stað?????
Ef einhver er sauður þá er það Björgvin G. OG.................... Bjöggarnir auðvitað!!! Bjöggarnir þrír. Góða teymið eða?
Mér finnst Árni bara hafa verið rólegur og heiðarlegur í þessu símtali. Nei nú hrópa misgáfuðu moggabloggararnir sem vildu kenna Árna um hrun bankana áður en innihaldið var birt, að Árni hafi talað af sér í símtalinu. Nú átti hann semsagt að ljúga til að koma þjóðinni ekki í vandræði? Djöfull vildi ég óska að þessu Moggabloggskrabbameini verði eytt sem fyrst. Stærsta samfélagsmein þjóðarinnar um þessar mundir. Fáfræði og fordómar kokkast þar og malla þar til uppúr sýður heimskan. Menn ala upp í hver öðrum rasima og agaleysi. Allar skynsemisraddir eru púaðar niður á sekúndubroti. Nei þetta fyrirbæri er Morgunblaðinu til skammar.
Annar viðbjóður sem ég verð að minnast á er konukvöld Blómavals sem nú er mikið auglýst í útvarpi. Hverjum dettur í hug að konur vilji láta smala sér á vörukynningu með "skemmtana"ívafi í Blómaval? Fyrr færi ég í heimakynningu þar sem ég yrði ristilspegluð við undirleik Geirs Ólafssonar en að láta sjá mig á konukvöldi Blómavals. Ég er með gæsahúð yfir þessum hrotta.

miðvikudagur, október 22, 2008

Af grenjum

Ég grenja yfir öllu en er samt sjúklega hress. Hvað er málið?! Las viðtal við Vigdísi Finnboga í klippingu í dag og var komin á fremsta hlunn með að biðja um Kleenex box en kunni svo ekki við það að verða Bryndísi frænku til skammar. Jæja það má svosem lifa með því, ástsælasti forseti þjóðarinnar og allur sá söngur, EN að grenja yfir þessari fáránlegu VR auglýsingu??!!! Ég kenni Sigurrós um það.

Af grönnum

Í dag eignaðist ég góðan granna en þær mæðgur B. og Agneta eru að flytja í Eskihlíðina. Agneta þarf ekki einu sinni að fara yfir götu til að geta skottast til Esterar og B. þarf ekki heldur að fara yfir götu til að koma í kaffi og slúður til mín. Magnað!
Næsta skref er svo að B. og Agneta flytji í næsta hús við okkur í Göteborg næsta haust, en þar er Doddi litli kominn með vinnu á Sahlgrenska Universitetssjukhuset og á að mæta 1. sept 2009 kl. 07.30.
Já ég ætla að flytja með, já ég geri ráð fyrir að ég fari líka að vinna og já ég geri ráð fyrir að fara í sérnám. Næst þegar einhver spyr mig í hverju ég ætla að sérhæfa mig þá tæti ég mig úr öllum fötunum og orga þar til ég blána. Ég stend við það!!!!

Ég var á vakt í gær og hringdi aðeins heim, þá var Ester organdi á bak við Dodda og ég heyrði hana stynja í ekkasogunum: "Ég vil ekki horfa á Emil á sænsku, það er ógeðslegt!"

föstudagur, október 17, 2008

Af útrásinni miklu

Ég var að horfa á upprifjun Kastljóssins á útrásinni á netinu. Ég held ég hafi amk tvisvar fengið óstöðvandi hláturskast. Þetta er eitthvað svo grátbroslegt svona í retrospect.

fimmtudagur, október 16, 2008

Af knúsi

Ég ætla að senda öllum lesendum þessarar síðu risastórt knús!!!

Eða nei annars. Ég geri ekki svoleiðis. Ekki vegna þess að ég hafi einhverja andstyggð á lesendum mínum, heldur vegna þess að ég þoli ekki svona yfirborðskennt, viðbjóðslegt kjaftæði sem hefur akkúrat enga merkingu.
Það er eitt að óska fólki velfarnaðar eða senda góðar kveðjur en að senda kossa og knús á bloggsíðum veldur hjá mér velgju. Ég er nú bara þannig gerð.
Moggabloggarar eru öðruvísi gerðir virðist vera.

miðvikudagur, október 15, 2008

Af forboðnum þrám

Ég þrái sushi. Það er ekkert sushi í kreppu.

þriðjudagur, október 14, 2008

Speglunarblogg

Vinkona mín fór í magaspeglun um daginn og tók eiginmann sinn með sér. Það er útaf fyrir sig áhugaverð ákvörðun að taka hann með sér í þessa athöfn því það er ekki eins og þau hafi verið gift í 13 ár, heldur 3 mánuði og átti þetta sér bókstaflega stað á hveitibrauðsdögunum. Ekki beint það rómantískasta en fallega gert af gaurnum engu að síður að sýna andlegan stuðning.
Nema hvað að lýsing mannsins að þessu loknu var á þá leið að nýbökuð eiginkona hans hefði minnt hann á kött á dýraspítala þar sem hún lá á hlíðinni á bekknum með kryppu á bakinu og hvæsti og kúgaðist með scopið í kokinu.
Og vísa ég þá enn á ný til þeirrar skoðunar að vafasamt geti verið að taka eiginmanninn með sér á yfirstandandi hveitibrauðsdögum. En hjónabandið virðist ætla að lifa þetta af.

Vinnublogg

Þegar við köllum á sjúklingana inn á stofu þá er venjan að gera það með nafni sjúklings, liggur í augum uppi. Sverrir bekkjarbróðir minn og vinnufélagi þessa mánuðina er að bólusetja hérna í næsta herbergi við mig. Hann fer reglulega fram og kallar: Influenza! og þá gefur fólk sig fram. Mér finnst sjúklega fyndið að svara kallinu Influenza.
Hann virðist auk þess vera að vinna meira en ég.

mánudagur, október 13, 2008

Pókerbústaðaferð Sápunnar

var farin um helgina.
Náði aðeins að vera með en svo var ég líka að vinna, sem var verra. Árdís og Tinna fá eitt stórt klapp fyrir ótrúlegan undirbúning, mikill metnaður þar á ferð.
En myndirnar tala sínu máli, ekki í tímaröð eins og venjulega á þessu vefsvæði. En hvað um það.
Ein í ferðinni var kona eigi einsömul og tvær úr hópnum hlupu allsberar umhverfis bústaðinn, og afhverju myndi maður gera það? Jú þær fengu 15 stig fyrir!

Sápublöðin sem við fengum afhent.

Stúdentinn, þokkalega hress með ferðina.

Hildur...... ÁÐUR en hún varð full.

Sneaky Snake með pókerfeisið sitt

Ástæðan fyrir því að Árdís kemur furðulega fyrir á þessari mynd er sú að Árdís er einfaldlega furðuleg.

The Gun!

Tinna, á meðan það leit út fyrir að hún myndi vinna pott kvöldsins, en.....

Lockness tekur við félagaskírteini sínu.

Sneaky Snake fær sitt.

Ég fæ mitt.

Chameleon tekur við sínu.

Geishan

Stúdentinn áberandi hressust með sitt félagaskírteini.

Þessar tvær afhentu hvor annari skírteinin sem þær höfðu eljast við að útbúa.

Lockness skrímslið.

Ólöf Júlía sá til þess að það yrði spilað frá sér allt vit.

Ok. Það er kreppa en mar drekkur samt ekki Europris gos!

Við elskum þessar tvær einmitt af því að þær eru svona!

Hvernig tekst þessari konu að vera svona sexy að klæða sig í ullarsokka?

sunnudagur, október 12, 2008

Af undrun dagsins

Ég beið spennt eftir Silfrinu í hádeginu eins og þorri þjóðarinnar að mér virðist.
Tvennt kom mér óstjórnlega á óvart að þættinum loknum.
Annað var sú samkennd sem ég fann með Jóni Ásgeiri, ég klökknaði á tímabili. Kannski mun sagan leiða í ljós að ég hafi verið auðtrúa og látið það hlaupa með mig í gönur að hafa fæðst með leg, en mér fannst hann færa ágætis rök fyrir máli sínu svona miðað við hvað hann fékk lítið að komast að.
Hitt var hvað Jón Ásgeir er ungur. Er hann virkilega 41 árs?

föstudagur, október 10, 2008

Af líflegum bankaviðskiptum

Ég hef engan hug á að leggja árar í bát (sko sjómannamyndlíkingarnar hjá minni!) hvað mín bankaviðskipti varðar. Ég var að leggja inn 20 evrur í Smáranum, eina bankanum á landinu sem ekki stundar ruglfjárfestingar skv. meilinu sem bankastjórinn sendi frá sér í gær. Ég hef ekki stofnað reikning í þessum banka fyrr þrátt fyrir mikið ónáð og áreiti frá forsvarsmanni bankans. En hví að sitja á 20 Evrum þegar maður getur geymt þær í plastmöppu í herbergi frumburðarins og auk þess fengið vikuleg meil um líðan evranna góðu. Það er gaman að segja frá því að innlánasjóður Smárans samanstendur að mestu leiti af evrum en að mjög litlu leiti af ísk krónum. Hvaða bankar geta aðrir stært sig af svo háu hlutfalli erlends gjaldeyris?

Talandi um ágang frá bönkunum. Síðustu vikur og mánuði hef ég nefnilega fengið uþb eitt símtal í viku frá umhyggjusömum starfsmönnum bankanna sem hafa haft miklar áhyggjur af lífeyri mínum og sparnaði. Prísa ég mig nú sæla að hafa ofnæmi fyrir slíkum símtölum og algjöran skort á nennu að setja mig inn í þessi samtöl. Og algjöran skort á áhuga á peningum ef út í það er farið. Ekki misskilja mig, ég er langt því frá að mála upp þá mynd af mér að ég hafi verið naumhyggju- og sparsöm, öðru nær, ég gengst við mínu óhófslíferni en ég hef þrátt fyrir það akkúrat engan áhuga á peningum sem slíkum eða því að safna að mér feitum sjóðum og tilbiðja Mammon sem minn æðri mátt.
Ég hef því ekki undan neinu að kvarta. Ég skulda minn yfirdrátt eftir sem áður, tapaði engu því ég átti ekkert, menntun mín virðist skyndilega skynsamlegri en fyrir þrem árum........... nei segjum þrem vikum, þegar ég grenjaði undan kjörum lækna. Fólk virðist fá hálsbólgur eftir sem áður og hafa þörf fyrir þjónustu mína, sem er gott fyrir afkomu fjölskyldu minnar, líka hina því hálsbólgan læknast.
Krakkarnir mínir eru sæt, skemmtileg, klár og verður aldrei nokkurn tíma misdægurt.
Verður varla betra en það.

Og ég verð að segja að ég upplifi afslöppun á einhvern fáránlegan hátt. Það er einhvern veginn eins og maður fái loksins frið!

fimmtudagur, október 09, 2008

Jóhönnublogg

Af því að ég er svo innblásin af gjammarablogginu mínu þá verð ég að minnast á Einræður Jóhönnu Vilhjálms í Kastljósinu. Hvaða fréttamaður spyr spurninga með 2 mín ræðu?

Gjammarablogg

Ég hefði átt að blogga meira um hinn orðvara Geir H. Haarde nú þegar birtast af honum myndbönd á netinu að kalla ónefndan fréttamann fífl og dóna.
Ef umrætt fífl og dóni og er sá fréttamaður sem pressa götunnar segir ummælin hafa átt við þá skil ég Geir svo vel. Mér finnst gjammarar og blaðurskjóður voða leiðigjarnar.

miðvikudagur, október 08, 2008

Nafnleyndarblogg

Já sæll!!!
Er eðlilegt að Orri Harðar sitji í viðtali á RÚV og segi frá því að langflestir sem starfi hjá SÁÁ séu í AA?? Nú starfa menn ekki undir nafnleynd hjá SÁÁ og þetta því í hæsta máta mjög óeðlileg ummæli og íslenskir fjölmiðlar handónýtir í nafnleyndinni! Hnuss!

Kvöldmatarblogg

Við horfðum á fréttirnar yfir kvöldmatnum. Varð þá Dodda að orði: "Ofboðslega er ég orðinn þreyttur á þessum endalausu myndlíkingum."

Kreppublogg

Mér finnst svo mikið af illa gefnu fólki sem hefur ekki hundsvit á málunum vera að blogga um atburði síðustu daga að ég hafði ákveðið að slást ekki í hóp þeirra.

Í dag bloggar Egill Helgason grein um svo ógeðfellda atburði að manni ofbýður. Þessir menn eru glæpamenn og eiga að fara í fangelsi!
Svo vilja menn draga Geir H. til ábyrgðar! Djöfullinn hefur hann gert af sér? Ég fæ ekki betur séð en að Geir sé að standa sig og mér finnst hann flottur. Vel menntaður, klár, veit hvað hann er að gera og umfram allt er yfirvegaður og með neinar djöfulsins ótímabærar blammeringar eins og ágætur forveri hans.

Lýkur þar með kreppuskrifum mínum.

sunnudagur, október 05, 2008

Frá Reykjarvíkurmaraþoni













Ester að nýloknu sínu fyrsta Reykjavíkurmaraþoni




















Vinkonurnar Ester Helga og Heiðrún Sunna.

fimmtudagur, október 02, 2008

Af Casino túr

Ohh það var svo gaman í póker í gær. Himneskt. Ég veit vel að það myndu ekki allir nota orðið himneskt yfir það að spila Texas Hold´em í spilavíti, en þetta var himnesk reynsla fyrir mig. Ég sat í hugleiðslu og horfði á fagmannlegu dealerana og vandaði mig að pakka nógu oft.
Það var alveg einstakt að fylgjast með Kristínu, hún var svo einbeitt á svipinn þegar hún var að sjá gaurana sem voru að reyna að hræða hana úr pottinum. Ég slúðraði við Auju á íslensku að það væri greinilegt að Kristín væri með eitthvað þangað til dealerinn bannaði okkur að tala saman nema á ensku. Þá var ekkert hægt að slúðra lengur.
Ég keypti mig inn fyrir 50$, stackinn minn var 120$ þegar ég stóð mig sem best en svo cashaði ég 50$ út þegar ég hætti. Sem sagt nokkrir klukkutímar í alsælu og tapaði ekki krónu. Segið mér svo hvort það er ekki himneskt?!

Frá USA

Ég nenni eiginlega ekki að blogga svona dagbókarfærslu um það sem við erum búin að vera að gera í USA. Mig langar meira til að blogga um fólkið, geðveikt hressu gestgjafa okkar, Auju sem tók mjög klúra mynd af mér, (meint slys að hennar sögn, sagðist ekki hafa vitað af kuntufítusnum á myndavélinni sinni), Gísla sem les svo vel í hegðun fólks að það munaði engu að hann hefði ekki dottið fyrstur út í póker í gær, en svo datt hann fyrstur út, Kristínu sem er með áttirnar og dagskrána á hreinu og lætur sig gengi krónunnar engu varða.

Annað sem er merkilegt við Kortarana, þau lifa til að hjálpa öðrum og fræða aðra. Lítið dæmi um það er sturtuhengið þeirra. Flestir eru með blóm eða flugur eða eitthvað slíkt á sturtuhenginu en ekki Kortararnir. Þau eru með World Map fyrir sturtuhengi. Maður verður svo æstur að fræðast um heiminn að mar gleymir að lather-rinse-repeat............. as needed.

Ég og Kristín vorum í Mall of America í gær. Í miðju mallinu er amusement park.... en ekki hvað í ameríkunni. Allavega, áður en ég vissi af var Kristín búin að kaupa miða í tækin og draga mig í rússibana. Hún segir söguna eitthvað öðruvísi. Í hennar sögu á ég frumkvæðið og rússibaninn eru litlar flugvélar sem fóru samt geðveikt hratt og eru geðveikt ógnvekjandi. Sjúklega hressandi. Við erum sjúklega hressar píur. Við rífumst samt reglulega um það hver er búin að sitja oftast frammí. Sko málið með Kristínu er það að hún er ekki nógu góð í Shot gun. Sjaldan hef ég séð neinn jafn sjokkeraðan og Auju þegar þær komu að sækja mig flugvöllinn og Kristín var að rogast með töskurnar mínar og snjóbrettið hennar Auju út í bíl. Ég sé bílinn og öskra Shot gun og hendist að bílnum, hendi töskunni hennar Kristínar úr framsætinu og afturí og sest inn. Á meðan er Kristín að kjagast á eftir mér að bílnum með töskurnar mínar og snjóbrettið og átti ekki séns í þessum slag. Ég spennti beltið á meðan Kristín raðaði töskunum í skottið og Auja var næstum dáin henni leið svo illa. Þetta var víst það óforskammaðasta sem hún hefur orðið vitni að fyrr og síðar og Auja er kona með fortíð.
Já þannig var nú það.
Nú er Auja komin heim og við erum að fara í langþráð Casino. Sjitt ég er svo spennt!!!!
Líf og fjör.