luxatio hugans

awakening

laugardagur, maí 31, 2003

Já og ég er búin að sauma 14 spor (í manneskju, ekki svamp) og taka 10 sauma. Þetta telur allt á leiðinni til mannvirðingar.

Ég er búin að vera dauðasti bloggari ever, eða eins og Addi kollegi minn myndi segja, þá er ég nichts. Það er bara búið að vera svo gaman í verknámi að ég hef ekki litið upp. Ég veit vel að ég er geðveik en well... Ég fór á fimmtudaginn í sjúkraflug til Siglufjarðar og fannst flott. Ég hef aldrei áður flogið svona út Eyjafjörðinn og það var rosalega flott að horfa inn í Ólafsfjörðinn og Héðinsfjörðinn. Svona á líka að fást við Ólafsfjörð..horfa á hann úr flugvél í hæfilegri fjarlægð. EN bíðið nú við. Kellingin fór í sjúkraflug til Kulusuk í dag og það var rosalegt, sló Siglufjörðinn alveg út. Við lentum í frábæru veðri, alveg heiðskýrt og glampandi sól og alveg magnað að fljúga inn grænlensku firðina. Það var líka frekar fyndið að stíga út úr vélinni, hringja í Dodda og segja "hæ, ég er á Kulusuk" Annars var þessi ferð engin gamanferð, við vorum að ná í mjög unga, alveg hundveika konu. Grænlendingur, talaði ekki dönsku og ekki ensku og hún var alveg skíthrædd við okkur og ætlaði bara ekki að koma með okkur!! Þegar við lentum svo á Reykjavíkurflugvelli þá beið eftir okkur sjúkrabíll og ég var fyrst út úr flugvélinni. Sjúkraflutningamaðurinn veður upp að mér, mjög æstur og byrjar að spyrja; "er þetta mósa, er þetta mósa?? Við strípuðum bílinn, okkur var sagt að þetta væri mósa! Er þetta ekki mósa?" Ég horfði bara á manninn, vissi ekkert um hvað hann var að tala, en ætlaði sko ekki að láta hann vita það!! "Nei, þetta er enginn mósa...þetta er nýrnabilun." Hann róaðist ekkert við þetta og réðst næst á Daða. "Er þetta mósa?" Mér til mikils léttis sagði Daði að þetta væri ekki mósa. En það breytir því ekki að ég vissi ekkert um hvað hann var að spyrja, þetta hefði getað verið mósa. Ég veit núna hvað mósa er:) Grænland er mósafrítt svo þetta er fínt!!!! Lifið heil við þessar gagnlegu upplýsingar. Líf og fjör frá slysadeildinni á Akureyri.
Hadda, hvenær kemur þessi krakki??!

sunnudagur, maí 25, 2003

Þá er setið inni á galtómu slysó og beðið eftir átökum helgarinnar. Eurovision keppnin að baki, mér fannst lagið sem vann frekar gott, ég er alein um þessa skoðun.... og Evrópa náttúrulega. Mér fannst Birgitta geisla af gleði og standa sig vel EN......... til hvers fór Selma Björns út? Hvar voru sporin sem þær voru að æfa saman? Ég sá bara buddusporin.
Syni mínum fannst víst brjóstin á keppendunum í fegurðarsamkeppninni eitthvað flott, og hefur hann þó frekar flotta viðmiðun ef þið fattið hvað ég meina!!!! Hvað er Þóroddur að hafa fyrir drengnum á meðan ég er hinum megin við Holtavarðaheiðina?
Ég er búin að fá að aðstoða í tveimur aðgerðum og sjá fullt af þeim. Munurinn er sá að þegar við erum að aðstoða þá erum við steril, þá skrúbbar maður sig inn, sem kallað er og skurðhjúkkan klæðir mann í dressið. Alveg eins og Dr. Romano. Þá er maður að aðstoða, fær að brenna, halda haka og klemmum og það er mjög kúl. En svo erum við búin að horfa á miklu fleiri aðgerðir, þá stendur maður svæfingamegin og þarf ekki að vera sterill, en það er mjög gaman líka.
Jæja nú er ég farin að bíða spennt eftir slagsmálahundunum, þeir hljóta að fara að detta inn. Líf og fjör people.

fimmtudagur, maí 22, 2003

þetta er svona frekar dæmigert náttúrulega að steinhætta að nenna að blogga þegar prófin eru búin. Ég er búin að vera rosalega þreytt eftir að við komum hingað, þetta er glænýtt álag sem maður er ekki vanur. Við erum búin að standa í fullt af aðgerðum og í sumum þarf maður að vera með níðþungar blýsvuntur sem bæta ekki ástandið. Það er nógu erfitt að standa kyrr. Anyways. Ég og Erik og Sólveig fórum á subway í hádeginu og lentum í æsilegasta kapphlaupi við bílastæðisvörð, sem þekkist!!!! Við sátum inni þegar við sáum hann koma, gripum matinn okkar og hlupum út, rétt náðum að henda okkur í bílinn og keyra af stað. Hann stóð í stæðinu mínu og horfði á eftir okkur og honum fannst þetta ekki baun fyndið.... en það fannst mér aftur. Ég borga helst ekki í stöðumæli, ég tími því alls ekki og þá lendir maður í svona hasar.

mánudagur, maí 19, 2003

Þá erum við stödd í aðstoðarlæknaherberginu á FSA. Ég og Erik og Sólveig erum frekar kúl en Erna, Addi og Beta eru það ekki. Brjáluð samkeppni í gangi. Anyways. Þá tókst Betu að villast á Akureyri í gær. Hún var að fara úr blokk strákanna í blokk stelpnanna, sem eru N.B hlið við hlið!!!! En það þarf að keyra smá hring hins vegar til að fara úr einni blokk í aðra. Hún villtist og keyrði örvæntingarfull um bæinn, og varð svo að hringja á sjúkrahúsinu til að láta bjarga sér. Hún gleymdi nefnilega gemsanum sínum líka. Óhjákvæmilega varð úr þessu smá sight seeing hjá Betu og þegar hún var spurð hvað hún hefði séð markvert, þá stóð það uppúr að hún hafði séð veitingastað sem heitir Mongó. Það fannst henni mjög Mongó!! Addi og Beta keyptu sér Petsu á Jóni Spretti og þau vilja koma eftirfarandi á framfæri; DON´T DO THAT!!

Shit! hvar er shout outið mitt??!!

sunnudagur, maí 18, 2003

Shit!! Hvar er teljarinn minn? Veit einhver hvernig ég færi hann??

OK ég fór í partý í gær. Fyrst var þetta voða rólegt og þægilegt en allt í einu varð allt vitlaust og fólk fór að syngja í karókí. HVORT SEM ÞEIR VILDU ÞAÐ EÐA EKKI!!! Mér varð því mjög órótt og langaði mest til að drepa mig, þegar ég áttaði mig á að röðin kæmi að mér og ég fengi ekki að sleppa. En... ég og Kristín og Bergþóra (Belee), sungum I will survive og ég slapp lifandi frá því. Nú þarf ég að leggja áherslu á eitt; Ég söng, edrú, fyrir framan fullt af konum sem voru líka edrú. Ég held að fólk átti sig ekki á stærð mengisins. Ég set inn link á Bergþóru í tilefni söngsigurs okkar. Já, tilefnin hafa verið minni. Svo var farið í actionary þar sem liðið, sem ég og Magga og Auja (og einhverjar fleiri) vorum í, sigraði með yfirburðum. Ég veit, Kristín mín, að þetta var sárt. Deal with it!! Fortíð, smortíð... Summary: Það var hrikalega gaman í gær, ég hló alveg ótrúlega mikið og svona yfir höfuð, er ég svo glöð að ég held að ég sé að springa. Ég vissi ekki að manni gæti klæjað líkamlega af gleði. En svona er það. Líf og fjör

laugardagur, maí 17, 2003

Ég set hér inn link á Ásu laganema. Það er snilld að fylgjast með því hvernig hún skrifar um skátann, manninn sinn. Hann heitir Siggi Tommi en hann fær aldrei að vera neitt annað en SKÁTINN í færslunum hennar. Mér finnst það mjög fyndið.

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði..... Freydís Helga, afmælisbarn úr þar síðustu færslu, er í aðalfréttatíma sjónvarpsins. Ekki nóg með það að hún sé 25 ára í dag, heldur er Freysteinn, sá ágæti faðir Guðrúnar Freysteins, 100 ára í dag. Þarna er hún Freydís mín á tröppunum á húsi afa síns í fagurbleiku pilsi.

Ég gleymdi að segja frá því að Hulda gaf mér disk með Jeff Buckley í örvæntingarfullri tilraun til að afeitra tónlistarhug minn. Jeff Buckley drukknaði og pabbi hans, Tim Buckley, líka. Svo mikið hefur mér verið kennt. Mér hefur einnig verið sett fyrir það verkefni að læra alla textana, sem gæti orðið svolítið erfitt því ég get aldrei lært neina texta...... Jóni Fannari til mikillar gremju á sínum tíma; "Allý, þegiðu ef þú kannt ekki textann! Ég drep þig ef þú hummar!!" Hulda er að hugsa um að beita mig aversive therapy, eða fráreitismeðferð. Það felur í sér að gefa viðfangi rafstuð þegar hegðun þess er ekki rannsakandanum þóknanleg. Í mínu tilfelli fengi ég þá rafstuð við að hlusta á Justin Timberlake og Britney Spears, og hugmyndin er sú að þá færi ég ósjálfrátt að hata þessa tónlistarmenn. Þau eru víst tónlistarmenn!! Hafið þið samt heyrt áhrifin frá John Deacon í Rock your body?? Áhrif Queen á nútímatónlist verður líklega seint fullmetin.
Hey og Palli og co. í KA rústuðu Haukum í úrslitum. Líf og fjör....

Svo gleymdi ég að segja að uppáhalds mágur minn er hér og ætlar að verða Íslandsmeistari 2. flokks karla í handbolta. Ég er heppnasta kona í öllum heiminum, því hvern dreymir ekki um að hafa báða mága sína uppi í risi hjá sér??!! Og svo eiga náttúrulega afmæli í dag tengdamamma mín og Freydís Helga. Til lukku með daginn báðar.
Baldur eignaðist síma dauðans um jólin. Hann er bara búinn að vera ömurlegur, alltaf að slíta, eyddi smsum og slökkti á sér þegar hann þurfti að fá sér lúr. (síminn ekki Baldur) Svo drap hann á sér og Baldur fór með hann í viðgerð enda síminn í ábyrgð. Svo þegar hann ætlaði að sækja hann úr viðgerð þá var síminn úrskurðaður ónýtur. Og vegna þess að það fundust rakaskemmdir þá féll ábyrgðin úr gildi! Og ef Baldur vildi fá símann til baka þá yrði hann að borga 1200 kall!!! Baldur náttúrulega beygði sig fram á afgreiðsluborðið og lét taka sig aftan frá. "Fæ ég núna afslátt af nýjum síma, ef ég kaupi hann af ykkur?" NEI!! Kúl fyrirtæki Síminn.

LÍF OG FJÖR (þetta skyldi öskrað helst) Ég er búin í prófunum. Viðbjóðslegasta ár Læknadeildar að baki. Híhí, gott á Baldur og Sverri, ykkar bíður dauði. Anyways. Gærdagurinn var æðislegur. Sólin skein, Kjartan bauð í grillpartý út á Álftanes, sem var hrein snilld, því þá voru allir saman þar, engin að fara eða vinir einhvers að koma. Bara við. Foreldrar Kjartans fá hrós dagsins. Stjúppabbi stóð út í garði og grillaði ofan í alla og mamma var búin að gera helling af salati og brauði og pestó þannig að þetta varð hugguleg grillmáltíð en ekki subbuleg eins og hún hefði svo auðveldlega getað orðið við þessar aðstæður. (ef þið skiljið hvað ég meina). Svo kom Helgi, skemmtilegi Flögugaurinn sem er með okkur í lífeðlisfræði, (Flaga fyrirtækið, ekki snakkið) og hann fattaði að stjúppabbi Kjartans er "Kæri Sáli" Kæri Sáli var útvarpsþáttur á Rás 2, þar sem lesin voru bréf unglinga og leyst úr þeirra málum, og svo var gefin út bók...... Allavega, þá átti bróðir pabba míns sem er svona 5-6 árum eldri en ég, þessa bók, og ég stalst alltaf til að lesa hana ef við vorum hjá ömmu og afa. Sér í lagi kynlífskaflann, þar sem þessi og hinn vissi ekki hvort hann væri hommi eða hvað. ÞETTA VAR GEÐVEIKT!!
Bjarni fær skömm dagsins. Fyrir að drekka freyðivín úr "of litlu" glasi allt kvöldið, og fatta svo að þetta var sprittkertastjaki.
Hulda var pía kvöldsins, í geðveikum kjól í anda sjöunda áratugarins, og með allt í stíl við það. Það skiptir máli að heildarmyndin sé í lagi. OG svo var hún með sólgleraugu sem voru keypt í H&M en allir héldu að þau væru Ray Ban. Meður þarf ekkert að eiga merkjavöru, fólk á bara að halda að maður sé með merkjavöru.
Allavega þá var þetta magnað. Langt síðan allir voru saman.

þriðjudagur, maí 13, 2003

Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um að blogga ei meir um líkamlegt ástand mitt, þá kemur hér ein lítil færsla í þeirri von að aðrir geti lært af henni.
Í fyrradag þá ákvað ég í ergelsi próflesturs að fara út að labba mér til hressingar og til að koma lífi í stirðnaða vöðva. Auk þess eru þeir að gera mig brjálaða með spriklinu, sambýlingarnir. Ekki var ég búin að ganga lengi þegar ég fór að finna fyrir því að hællinn nuddaðist óþægilega upp við skóinn, en ég lét það ekki á mig fá og hélt göngunni áfram, minnug fitubrennslu niðurstöðunnar úr ergometriunni. Eftir um hálftíma göngu var ég orðin hölt og afar kvalin, og frekar langt heim. Ég skima í kringum mig eftir einhverju mýkjandi og sé fífil. Ég ríf krónuna af stilknum og kem henni haganlega fyrir á blóðuga svæði hælsins, í þeirri von um að draga úr núningnum. Á leiðinni heim leið ég vítiskvalir og sveið mjög undan fíflinum, svo ég fjarlægði hann aftur og haltraði heim. Sokkurinn og sömuleiðis skórinn var alblóðugur, minnti útgangurinn á vondu stjúpsysturina sem hjó af sér hælinn. Gærdagurinn var svo alveg sæmilegur en í nótt sem leið, vakna ég við mikla verki og get ekki sofnað aftur. Mikill hiti og þroti var í fætinum og ég hugsa með mér að ég hafi sennilega fengið sýkingu af helvítis fíflinum og staulast við illan leik inn á bað og ber á mig sýkladrepandi áburð, Fucidin. Það er við manninn mælt að sviðinn og verkurinn verður gjörsamlega óbærilegur og get ég engan vegin verið. Á meðan á öllu þessu stendur get ég svo hlustað á samfarahljóð nágranna minna sem búa þremur hæðum fyrir neðan mig, mikill losti þar. Ég gafst að lokum upp og tók tvær verkjatöflur og gat að lokum sofnað. Ég er bara pínu hölt í dag en finn að ég verð að passa mig. Ég vona að þessi saga verði einhverjum víti til varnaðar. Hættum þessu hreyfingarrugli!!!

í dag, 13. maí, eiga afmæli Aðalheiður og Þóroddur. Þ.e.a.s við erum búin að húrrast saman í 7 ár. Það finnst mér ótrúlega langur tími en samt eiginlega ekki því ég man eiginlega ekki eftir öðru en að við höfum verið saman. Ég man ekkert hvernig þetta var áður. Allavega, þá skemmir það stemninguna örlítið að vera að fara á límingum í próflestri. Doddi er að fara í meinafræði á morgun og ég í lífeðlisfræði á fös. En við gerðum okkur dagamun og fórum á Grænan kost í hádeginu. Über rómó!! Líf og fjör.

Ó mæ god! Nú get ég ekki lengur orða bundist yfir þessari tvífarakeppni í Séð og Heyrt. Þetta er bara vandræðalegt...... Hvað í ósköpunum fær konuna til að trúa því að hún sé svo lík Söruh Jessicu Parker, að hún sé hreinlega tvífari hennar!!!! O.K með Söruh, hún er ekkert falleg, en hvað er málið með gelluna sem var "tvífari" Angelinu Jolie!!!! Þetta er rosalega neyðarlegt. Getur enginn hjálpað þessu fólki?!! Nú eru þrír dagar eftir af próftíð dauðans og svo er það bara, partei on ei-kei. Annars var ég að fatta svolítið sniðugt....sem kannski Höddu finnst ekki svo sniðugt. Við eigum að hengja okkur á e-h aðstoðarlækna á handlækningadeild og fylgja þeim hvert fótmál. Nú er það svo að aðstoðarlæknarnir á handlækningadeild eru kallaðir inn í fæðingar sem ganga eðlilega og ekki þarf að kalla á fæðingarlækni. Hadda, ef þú vilt vinsamlegast eiga barnið að degi til, þá verð ég það fyrsta sem barnið þitt sér, í heimi hér!!! Kannski gleður þetta mig meira en þig??!!! Anyways. Annars vorum við vinirnir sammála um það á kosningavökunni, að Höddu tækist ekki að eiga þetta barn uppá fæðingardeild eins og öðru fólki. Nei, Hadda á eftir að eiga barnið í lyftunni í Amarohúsinu, eða í bíl á planinu á Glerártorgi. Eitthvað drama, eitthvað öðruvísi, helst eitthvað sem kemst í blöðin. "Skáti tekur á móti barni í bíl" Líf og fjör.

laugardagur, maí 10, 2003

Úff, dramatísk stund inni í kjörklefanum áðan. Ég var ekki búin að ákveða mig þegar ég labbaði með seðilinn inn í kjörklefann. Ég las vandlega öll nöfnin á öllum listunum, örugglega hefur myndast biðröð á meðan ég var að ákveða mig, og að lokum setti ég svo X við .... Mamma hafði hringt í mig um morgunin til að athuga hvort ég ætlaði ekki örugglega að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og ég fékk dramatíska ræðu um það hvernig þjóðfélagið myndi kollvarpast og jarí, jarí, jarí. Anyways. Ég er sannfærð að ég kaus rétt. Svo fór ég á opnun útskriftarsýningu Listaháskólans. Sólveig frænka mín var að útskrifast sem grafískur hönnuður og fékk ég því virðulegt boðskort. Þetta er rosalega flott sýning, mjög spes... Ég hafði það á tilfinningunni að við Doddi værum eina fólkið þarna inni í samstæðum sokkum. Annars var þetta bara magnaður dagur!!! Líf og fjör í loftinu, og allir í góðu skapi. Svo á ég von á miklum spekingum í kosningavöku og bíða þeirra miklar kræsingar.

föstudagur, maí 09, 2003

Ég þoli ekki þessa leikkonu, bæði er hún léleg leikkona og auk þess er hún með rottuandlit, ég skil ekki hvernig þetta gat gerst!!!!

You're Penelope Cruz...you're special and different
but you know where you stand. You don't regret
for things past and you hold you head up
high...


What actress are you?
brought to you by Quizilla


Ricky átti ekki skilið að fara í kvöld. Mér finnst svarta gellan ömurleg.... mér finnst hræðileg tilhugsun að þurfa að hlusta á enn einn Whitney Houston smellinn frá henni. Burt með hana!! Bottom line: Ruben rules!!!

Ég verð að fara skipta um template.... Þetta template er viðbjóður og auk þess mjög ópraktískt!

Dagurinn sem Jón Már Héðinsson var skipaður skólameistari Menntaskólans á Akureyri, er svartur dagur í sögu skólans.
En til að þessi færsla verði ekki eintómur viðbjóður þá fylgja góðar fréttir með. Atli Eðvaldsson er loksins, loksins, loksins búinn að segja af sér sem landsliðsþjálfari. Ég var farin að örvænta að þessi dagur kæmi aldrei. Líf og fjör.

My evil twin auglýsir þvottavél og þurrkara í tímaritinu Birtu í dag. Á öftustu síðu, til að vera nákvæm. Hún er alveg fáránlega lík mér, séð á hlið. Nema.... ég myndi aldrei hafa þessar viðurstyggilegu krullur í hárinu, það er eins og konan hafi fengið sér ódýrt permanett, jafnvel sett það í sjálf!! Það er ástæða fyrir því að ég á 9000 króna sléttujárn. Hún er sú að líta ALDREI svona út. Annars er ég með glænýja hárgreiðslu. Ég er með eins klippingu og Kolla í djúpu lauginni. Aumingja Jóhanna María sem klippir mig. Síðast kom ég og bað um klippingu eins og Ragga Gísla. Nú kom ég og bað um klippingu eins og Kolla á forsíðu vikunnar. Og það gekk bara fínt. Ég var komin með nóg af þessu þunglyndislega útliti, nú þegar sumarið er komið, þá á maður að vera sumarlegur. Líf og fjör.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Ég bý með tveimur karlmönnum, sem eru samt ferlegar kellingar, en það er önnur saga. Allavega, á maður ekki að finna klám á stikunni eða í history þegar maður býr með tveimur sem eru með ........?? Það sem er á stikunni minni, og fer reyndar viðurstyggilega í taugarnar á mér er:
ski.is
hlaup.is
ois.o.se
langrenn.se
o.s.frv í viðbjóði.... má ég þá heldur biðja um klám á stikuna!

Okei, ég held ég hafi misst mig í einlægninni í gær. Héðan í frá verður ekkert bloggað um líkamlegt ástand mitt....... NEMA að það sé þeim mun meira krassandi, of course.
Annars er það nýjast að frétta af syni mínum að hann er orðinn konungur yfir Íslandi. Ómögulegt er að fá drenginn ofan af þessu. Ég svitna bara við tilhugsunina að hann fari að ganga um og segja fólki að hann sé konungur Íslands. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þetta mikilmennskubrjálæði (úr föðurættinni) en það þarf að hýða þetta úr honum sem fyrst. Af Önnu Frank er það að frétta að hún er að keppa í flugleiðamaraþoni einhverju. Sumt fólk er og verður nörd og við því er ekkert að gera, en ef hann vinnur ferð til Evrópu þá ætlar hann að gefa mér hana og þá tek ég þetta allt til baka. Go Anna, win the race!!!!

miðvikudagur, maí 07, 2003

Þar sem ég lá andvaka undir morgun, þá rifjaðist upp fyrir mér minning úr æsku. Ég hef ákveðið að deila henni. Sjálfsagt er dómgreind mín skert af svefnleysi, but here goes: Þegar Allý byrjaði á blæðingum og afleiðingar þess!
Þetta hófst allt einn morgun í desember að ég fer á fætur og fer á klósettið. Þar varð mér ljóst að eitthvað hræðilegt hafði gerst. Ég var byrjuð á blæðingum! Augljóst var að ég hafði misst mikið blóð og myndi sennilega deyja. Við þá tilhugsun fannst mér að ég næði ekki andanum og ég staulaðist því að útidyrahurðinni til að fá ferskt loft. Við bjuggum uppi í sveit á þessum tíma, því pabbi var einn af þeim sem var að byggja Blönduvirkjun og við bjuggum tímabundið í húsi sem stóð á jörð, sem annar bóndi stundaði búskap á. Anyways. Fyrir framan húsið var stétt og möl og það steinlíður yfir mig, annar helmingurinn af andlitinu lenti í stéttinni og hinn á mölinni og gleraugun brotnuði. Þetta voru ein af þessum undurfallegu gleraugum sem ég átti í æsku. Þegar ég rankaði við mér, var ég að drepast úr kulda því ég hafði ekki klætt mig, þegar ósköpin dundu yfir. Ég var því mjög ósmart. Ég skreið inn í hús og lá í forstofunni og gólaði á mömmu sem enn var sofandi þennan morgunin. Hún kom og henni brá mjög þegar hún sá mig, náhvíta í framan og illa útleikna í andlitinu. En henni varð nákvæmlega jafn skemmt þegar hún vissi hvað hafði gerst og lagði engan trúnað á það að ég væri dauðvona, hún þóttist vita betur en það. Allavega ég tók af henni hátíðlegt loforð að hún mætti aldrei aldrei aldrei segja neinum hvað hafði gerst. Þá virtist þetta allt að baki.... Mamma hafði sótt um að fá sumardvalabörn í vistun í gegnum félagsmálastofnun þá um sumarið og nú komu tvær ágætar konum frá þeirri stofnun til að skoða tandurhreint heimili okkar. Svo er setið inni í eldhúsi og málin rædd, þegar ég kem inn í eldhús, með samanlímd gleraugu, glóðurauga á öðru og andlitið allt í skrámum. Þessar ágætu konur, sem sérhæfa sig í heimilisofbeldi, sáu undir eins að eitthvað hefði gerst. Svo ég var spurð mjög vinalega hvað hefði komið fyrir mig. Ekkert, sagði ég strax og sendi mömmu drápsaugnarráð sem minnti hana á loforðið sem hún hafði gefið mér. Þetta tóku góðu konurnar ekki trúanlegt og spurðu aftur og nú með aðeins meiri ákveðni. Nú svo ég sagði að það hefði liðið yfir mig, en bara af hræðslu... Leið yfir þig af hræðslu? Nú, gerist það oft??, spurðu góðu konurnar. Já, já sagði ég. Það líður oft yfir mig af hræðslu. Sem var sannleikanum samkvæmt, því þennan vetur hafði liðið yfir mig í öllum bólusetningum, berklaprófum og blóðprufum. En sá litli fróðleikur fylgdi ekki sögunni. Þannig að þessi tvö félagsmálaljón, fóru aftur til baka, með þá hugmynd af mömmu að hún væri svoooo hræðileg, að hún þyrfti ekki að beita okkur ofbeldi, það leið hreinlega yfir okkur af hræðslu í návist hennar. Mamma var mjög æst, þegar konurnar voru farnar. Af hverju mátti hún ekki segja hvað gerðist? Af hverju sagðiru þetta? Eða hitt? Og þetta var rætt af foreldrum mínum næstu dagana og skaðinn metinn. Allavega. Svo er haldið jólaboð um jólin þar sem tvenn vinahjón foreldra minna eru boðin og þau áttu glás af krökkum á mínum aldri. Líf og fjör það kvöldið og ég var að byrja að jafna mig á hörmungum síðustu daga. Þar til Þórgunnur systir mín tekur sér stöðu inni í stofu og tilkynnir: Allý er byrjuð á blæðingum og það leið yfir hana. Algjört rothögg. Ég á ennþá eftir að ná mér niðri á þessu litla skrípi. Það mun gerast!!!

AAAAAAAAAARRRRRRRRRGGGGGGGGGHHHHHHHH!
Það var geðveikt partý í stigaganginum mínum í nótt. Hjá tröllinu á svarta Range Rovernum. OH! Það er svo kúl og flippað að detta í það á þriðjudegi!!! Ég vildi að líf mitt hefði slíka fyllingu....

þriðjudagur, maí 06, 2003

Ég fór í klippingu áðan, (er gerbreytt í útliti bæðevei) og var að lesa eitt af þessum viðurstyggilegu kvennablöðum. Taktu prófið: "Hversu vel hugsar þú um húðina á þér?" Andsk.... Hvaða fáviti tekur slíkt próf??!! Anyways. Nýjustu rannsóknir, af rannsóknarstofu Pamelu Anderson þá eða?, sýna að pör þar sem karlinn er 1.09 x hærri en konan eru hamingjusömust!!!! Það er ekki að spyrja að því, Doddi er 1.09 x hærri en ég. Ég er ekkert voðalega sátt við það, að einhverjar bjánaniðurstöður úr kellingablaði, skyldu í raun og veru gleðja mig. Ég veit hins vegar ekki hvort þessar niðurstöður gleðja þau ágætu hjón, Hólmfríði og Darren. Darren var einmitt eini maðurinn á jörðinni sem átti ekki að lesa dissið mitt um fjallgöngufólk, en.....

mánudagur, maí 05, 2003

Ég á afmæli í dag.... Geðveikt kúl. Kannski fer ég út að borða á eftir og bið um stóra vatnskönnu með matnum. Líf og fjör.

Baldur er Anna Frank.
Hljómar ekki vel, en staðreynd engu að síður.
Hann býr við ömurlegan kost upp í risherbergi, sefur á dýnu undir súð og lítur annað slagið í bók, sömuleiðis í þessu sama risherbergi, við slæm birtuskilyrði og óloft. Ég vona bara að það fari ekki fyrir honum eins og Önnu Frank. Að hann drepist úr gaseitrun.... Það væri þá bara metangaseitrun....af hans eigin völdum!!!

sunnudagur, maí 04, 2003

Ég held með Ruben, í American Idol.
Party on, dog!!

Djöfull er ég viðurstyggilega leiðinleg þessa dagana!!!!
Ég hata próftíð!!!!
En ég ætla að labba til Héðinsfjarðar í sumar. Hefur einhver áhuga á að koma með? Ég veit vel að ég myndi venjulega gubba yfir fólk sem segðist ætla að labba á eitthvað djöfulsins fjall eða í einhvern fjörð. Það er eitthvað viðurstyggilegt við fólk í íþróttabuxum, vindjökkum og gönguskóm með fávitabros á andlitinu, labbandi út um allar trissur. En þegar ég ákveð að labba yfir í Héðinsfjörð þá gildir eitthvað allt annað um mig. Mér tekst að gera þetta eitthvað smart. Það er ekki öllum gefið og því ætti það fólk að troða Rucanor krumpugöllunum upp í ....gatið á sér!!! Líf og fjör.

föstudagur, maí 02, 2003

Doddi og Blaður (djók Baldur, rafastugl sko) er búnir að vera ýkt duglegir að hlaupa upp á síðkastið, allt að 2x á dag. Já ég veit, bara til að láta okkur hinum líða illa, eins og við séum löt. Anyways. Þeir taka svo mikinn lit í þessu veðri að bekkjasystkini Baldurs spurðu hann í prófinu áðan hvort hann væri að koma frá útlöndum. Sjálf er ég ljót og hvít og verð móð að labba upp fjórar hæðir. Svo er ég að vinna í því að koma Blaðri (ég veit, mér finnst þetta eitthvað fyndið) á fyllerí í þessu bekkjapartý í kvöld:) Mjög undarlegt af manneskju í minni stöðu, en kúl samt. Líf og fjör.

Mér finnst Bob í Bachelorette algjör draumur.. Nammi, namm. Hann er alveg týpískur fyrir allt sem ég hef alltaf hrifist af, fyndinn og klár. Svo finnst mér hann viðbjóðslega myndarlegur. Ég næ varla andanum. Hvað er að stupid, shallow Trista??! Viðbjóðslegir náungar sem eru eftir, slepjulegt chocoútlitið er svo klisjukennt að manni verður hreint og beint flökurt. Ég lýsi yfir vanþóknun minni á þessari gellu og smekk hennar á karlmönnum. Kannski eins gott að hún valdi ekki Bob því hann er alltof góður fyrir hana. Ég vona að Bob verði næsti Bachelor, þá fyrst verða þessir þættir hrein og bein skemmtun.

fimmtudagur, maí 01, 2003

Heyrist misjafnlega hátt í fólki þegar það borðar, eða er þetta alltaf spurning um stað og stund og jafnvel sálarástand þess, sem hljóðin heyrir???!!! Getur þetta verið spurning um misjafnlega kröftugan kokreflex eða er þetta allt ímyndun ein?! Í þessum vangaveltum mínum, eru mér ofarlega í huga bræður tveir af ákveðinni ættkvísl, sem ég hef kynnst ágætlega í gegnum tíðina, öðrum þeirra betur reyndar, en hinn kemur og fer....... Hefur mér fundist sem þeir gefi frá sér mikil hljóð við át sitt, stundum svo að það jaðrar við hávaða. Ég var að hugsa um það áðan að setja á mig peltorinn því ég komst ekkert áfram í glósunum, svo mikil fannst mér truflunin. Svo ég spyr aftur; Er þetta eingöngu pirringur í mér, í prófum og svona, eða er þetta andskotans kjams, brak í kjálkum og kokhljóð, ÆTTLÆGUR ANDSKOTI??!!!