luxatio hugans

awakening

mánudagur, mars 31, 2008

Af brýnni málum

Sigurður vinur minn hefur enn eina ferðina hitt naglann á höfuðið. Hann bloggar um mál sem er ofarlega á baugi hvað sem allri óðaverðbólgu líður.
Ég ætla að endurtaka mitt innlegg í hans umræðu hér. Ég hata frasann "Knús og kram"! Mér finnst ógeðslegt að sjá fólk ljúka máli sínu á þennan hátt. Hvort heldur sem er í eigin bloggfærslum eða í athugasemdum hjá öðrum. Ég veit vel að ég er á margan hátt sérstök og einhverjir kynnu að segja pirruð, en innyfli mín snúast bókstaflega við þegar ég sé þetta. Innsæi mitt hefur sagt mér að þetta er mestan part sama manngerðin sem notar þennan frasa. Tilgerðarlega næs týpan.

sunnudagur, mars 30, 2008

Enn af Birgi Leif

Hvað er í gangi kallinn minn? Endar í síðasta sæti, með alla þína kylfingshæfileika! Ekki missa trúna. Í Guðs almáttugs bænum farðu nú ekki að íhuga það að hætta að stunda golf, þó svo að í enn eina ferðina ekkert gangi upp hjá þér.

laugardagur, mars 29, 2008

Af kraftaverkum

Við fengum mann í mat í gærkvöldi, já og landhjúkrunarfræðing Íslands líka, en það er fyrir margt merkilegt að hafa fengið þennan ágæta mann í mat. Ég man nefnilega nákvæmlega hvar ég var þegar ég fékk þetta hryllilega sms frá Dodda sem ég hafði beðið hann um að senda mér um leið og henn vissi eitthvað. Í sms-inu stóð eingöngu: aorta dissection. Þá var mér allri lokið og ég átti hvorki von á að sjá manninn framar né því að hann ætti eftir að borða í nýja glæsilega eldhúsinu mínu eins og hann gerði í gærkvöldi, já og landhjúkrunarfræðingur Íslands líka.
Annað sem gerðist ótrúlega merkilegt í gærkvöldi og í fyrsta skipti í mannkynssögunni er að eðlilegur hárlitur var á minnihluta þeirra sem snæddu við matarborðið. Hinir voru með hárlit eins og Lína Langsokkur eins og sjá má hér:



Þessar tvær litlu skvísur voru hins vegar 50:50


fimmtudagur, mars 27, 2008

Af næturvaktarmanium

Það fá þær greinilega fleiri en ég.
Þóroddi, eiginmanni mínum, fannst það nefnilega prýðileg hugmynd í gærmorgun eftir næturvakt að panta 40 kg af gróðurmold og gulrótarfræ á netinu og láta senda Jóni Fannari vini sínum í þrítugsafmælisgjöf.
Fleirum en mér fannst þetta furðulegt. Blýflugan og blómið á Akureyri hringdi til að fá staðfestingu á því að þessi pöntun væri rétt, áður en þeir tóku sig til og glöddu afmælisbarnið með heimsendingunni góðu.
Þessi bloggsíða væri löngu dauð ef ég væri ekki gift Þóroddi.

Update - Af feisbúkk

Okei! Grúbban: Allý breyttu profile myndinni þinni er komin með 8 meðlimi!! Þar af 6 EFTIR að ég breytti helvítis myndinni. Einelti af verstu sort. Eins gott að ég er með besta húmor allra sem ég þekki.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Af æðri máttarvöldum

Sko kannski eru æðri máttarvöld að reyna að halda mér frá því að gambla með peninga en ég er drulluslöpp. Það er pókerkvöld hjá doktoritas í kvöld. Síðast var ég líka lasin á pókerdegi. Skilja æðri máttarvöld ekki að til eru kódein lyf blönduð paracetamolum? Það stöðvar mig ekkert á pókerdegi. Óþarfi að láta mig smita heimilisfólkið samt.
Litla pókerpettið mitt og hitt litla pókerpettið mitt (feisbúkk), pay up! Potturinn er minn!

Af feisbúkk

Mér finnst dálítið gróft að búið er að stofna grúbbu á feisbúkk, til höfuðs profile myndinni minni.

mánudagur, mars 24, 2008

Doddi feministi

Það var auglýsing í sjónvarpinu áðan sem sýndi einhvern saumaklúbb ganga af göflunum yfir einhverjum LU-kex leik og Veet háreyðingakrem kom eitthvað við sögu en ég náði ekki samhenginu.
Það fauk eitthvað í Dodda sem hreytti út úr sér að þetta væri nú eitthvað fyrir feminsta að verða brjálaðar yfir, að verið væri að markaðssetja kvenfólk sem hálfvita.
High five fyrir Dodda. Þess vegna er ég gift honum.

laugardagur, mars 22, 2008

Af sjálfsgúggli

Eru menn svona duglegir að gúggla sjálfa sig eða hvað er málið??

fimmtudagur, mars 20, 2008

Af hálsríg

Heyrði að Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingurinn snjalli og eftirlætis íþróttamaðurinn minn, hefði þurft að hætta keppni vegna hálsrígs.
Það munaði engu að ég fengi hálsríg við þá frétt.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Baldur hvað gerist ef tvö svarthol rekast á hvort annað?

Hitti einn af fyrstu þjálfurum Ingvars í fótboltanum á árshátíð læknanema. Hann heitir Baldur Þórólfsson og er á öðru ári. Fyrst spurði hann mig hvort Ingvar væri enn að æfa, svona eins og það væri ekki gefin breyta í jöfnunni, og svo sagði hann mér að hann hefði aldrei þjálfað krakka eins og Ingvar. Ekki svo mikið að pæla í fótboltanum en meira í þessu einmitt: Baldur, hvað gerist ef tvö svarthol rekast á hvort annað?
Uhh ég veit það ekki - þegiðu og haltu á lofti! Nei kannski sagði hann það ekkert, ég hefði sagt það og Anna María hefði definately sagt eitthvað þaðan af verra.
En nú verð ég að fara því Ingvar er einmitt að fara að keppa í fótbolta. Best að húrra krakkanum í space wagoninn og drífa sig á völlinn!
Áfram Valur!

Færsla 1200

fjallar um krónuna.
Góðan daginn kæra króna, hvað á að falla mikið í dag?
Það gleður mitt skuldsetta hjarta að
a) hafa ekki keypt ferð fyrir okkur hjónin til Bali með útskriftarárganginum
b) hafa ekki keypt ferð fyrir alla fjölskylduna til Flórída og eiga eftir að kaupa gistingu í 3 vikur í dollurum
c) verður að vera c) í svona upptalningu.
Vill einhver fjármálafróður vinsamlega hafa samband við mig og segja hverjum þetta er að kenna. Verð að geta kennt einhverjum um! Líður betur við það. Helst vil ég kenna Hannesi Smárasyni um þannig að ef einhver þarna úti telur sig geta klínt þessu klúðri á hann þá endilega hafðu samband.

föstudagur, mars 14, 2008

Árshátíð beibí!

Hey, er að fara á árshátíð læknanema í kvöld. Mína síðustu, ef ég klúðra þá ekki prófinu 9. maí. Nei definately mína síðustu, því ef ég fell í prófinu í maí og fæ ekki að útskrifast þá efast ég stórlega um að ég mæti með uppsett hár á Nordica að ári til að fagna þessari óvæntu aukaárshátíð sem mér áskotnaðist.
En ég er alveg hryllilega spennt, svona miðað við að ég ákvað ekki að fara fyrr en á miðvikudaginn. Tveggja daga fyrirvari er allt of stuttur fyrir megrun, brúnkumeðferð, litum og plokkun og allt það sjitt. Þannig að það er ekki úr miklu að moða fyrir kvöldið nema mína meðfæddu fegurð. En ég fer langt á henni.
Það er morgunpartý hjá Thorarensen klukkan 11 og ég er enn á náttfötunum. Garagó.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Af snappi eiginmannsins

Eins og sumir hafa fengið að reka sig á, get ég verið ansi geðvond eftir sólarhringsvaktirnar sem ég hef verið taka fyrir austan. Eftir eina slíka kom ég heim að morgni og byrjaði á því að bjóða fullt af fólki í mat og póker um kvöldið. Svo var ég með einhvern hreyting í allar áttir og fór svo að sofa. Doddi ræfillinn hafði heyrt í gegnum mína hlið símtalana að ég var eitthvað að bjóða í mat og var eitthvað stressaður yfir þessu og vildi vita hverjir kæmu og hvenær og hvað ætti að hafa í matinn en mér fannst þetta ekki svona mikið mál og vildi bara fá að sofna í friði og bað hann að leyfa mér að sofna, þetta myndi reddast. Þegar ég svo vakna og VOGA MÉR að spyrja hvort Olli frændi hafi verið látinn vita af matnum þá fuðraði Þóroddur skyndilega upp, otaði steikarspaðanum sem hann hélt á að mér og hvæsti: "Ef ég myndi nenna því þá myndi ég snappa núna!"
Svo snappaði hann, þannig að augljóslega nennti hann því alveg, skil ekki kommentið sem á undan kom en til allrar ólukku fyrir mann sem snappar einu sinni á öld vorum við Anna María báðar viðstaddar og trylltumst úr hlátri. Ömurlegt að snappa loksins og fá ekki að gera það í friði fyrir flissi. En frasinn er óborganlegur og brúkanlegur við flest tækifæri.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Ken Lee - Bulgarian Idol (WITH ENGLISH TRANSLATION)

JÁ ÉG ER LASIN OG MÉR LEIÐIST!

En mér finnst samt mikilvægt að benda á þátt Ástu frænku í öðru marki íslenska landsliðsins í leiknum við Finnana um 7. sætið. Reyndar skil ég þetta ekki alveg. Það var deginum ljósara frá upphafi móts að þær gætu aldrei endað ofar en 7. sæti. Why? Líklega var þessu eitthvað styrkleikaraðað í riðla en samt unfair. Liðið er greinilega á rífandi siglingu og gaman hefði verið að sjá hvað þær hefðu getað á móti þeim bestu.
En KSÍ kann að forgangsraða og Ólafur Jóhannesson fær FJÓRA nýja aðstoðarþjálfara til að freista þess að koma íslenska karlalandsliðinu á stórmót. Hann gæti fengið 40 aðstoðarþjálfara en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er líklegra að kvennalandsliðið komist á stórmót en þetta blessaða karlalandslið. Og það þrátt fyrir að þeir hafi þennan eftirsóknarverða lim sem virðist öllu máli skipta. Skrítið.

Ester og Mói á aðfangadag







Af eymingjahætti

Ég er ekki nógu hress. Ég er lasin og á bágt. Enginn er að hugsa um mig - engum þykir nógu vænt um mig til að strjúka yfir ennið á mér með rökum, svölum þvottapoka, leigja handa mér videospólu og kaupa handa mér kók. Ég er einstæðingur í þessum heimi. Ferlega er það ömurlegt hlutskipti.
En eitt á ég til að lifa fyrir. Það er pókerkvöld og ég er vel birg af hitalækkandi og verkjastillandi. Potturinn verður minn.

mánudagur, mars 10, 2008

Hræra aðeins upp í þessu?

Þarf maður ekki að fara að gera eitthvað sniðugt og hressandi hérna?

sunnudagur, mars 09, 2008

Myndir frá öskudeginum


Ingvar Vampíra


Sætasta Mína Mús

laugardagur, mars 08, 2008

Respect dagsins

fær Manuela Ósk Harðardóttir frá mér fyrir að segja frá reynslu sinni og sýn á fegurðarsamkeppnir í Fréttablaðinu í dag. Mikið vildi ég að fleiri fyrrum fegurðargellur myndu gera þetta í forvarnarskyni. Ég hef sagt þetta áður, að allar stelpur sem ég þekki og hafa tekið þátt í svona keppni skammast sín fyrir það og það má ekki ræða það. Why? Ef þetta er svona uppbyggjandi? Glataðar fornalda hrútasýningar sem mér finnst að aðstandendur keppnanna eigi að skammast sín fyrir að standa enn að. En þeir gera það ekki. Og mjög margir eru voðalega hlynntir þessu. Og fleiri eru þeir sem telja mig ljóta og bitra fyrir að hafa aldrei fengið að taka þátt í svona keppni.
Þó mér finnst hún Ester mín, sætasta stelpa sem ég hef bara séð, þá myndi ég aldrei veita blessun mína fyrir þátttöku í svona keppnum og ennfremur vona ég að mér takist að innræta henni þau viðhorf út í lífið að það muni ekki einu sinni hvarfla að henni að falast eftir slíkri blessun.
Ég vona bara að það verði gellur eins og Ásta frænka og Margrét Lára sem hún vill líkjast.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Mögulega mesta flopp í íslenskum fjölmiðlum EVER?!

Jóhanna Vilhjálmsdóttir var að ræða við tvo stjórnmálafræðinga í Kastljósinu í gærkvöldi. Umræðan var um forkosningarnar í USA. Þar ákveður hún að sýna myndband úr kosningabaráttu Hillary Clinton. Myndbandið er augljóslega grínmyndband af YouTube en Jóhanna kemur upp um sig með því að dæsa í lokin á auglýsingunni og segja: "Já! Þetta er svakaleg auglýsing!" Stjórnmálafræðingarnir tveir sem greinilega eru með vit í hausnum sögðu strax að þetta væri nú bara eitthvað grín en ekki alvöru auglýsing. Jóhanna reynir að klóra í bakkann með að þetta hljóti að hafa skolast eitthvað til, en má ég þá benda á það að auglýsingin er textuð!! Orð fyrir orð. Líka: "þá sendir hún dauðasveitir til að drepa börnin ykkar í svefni!!!!!!!!!!!" ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ TEXTA ÞETTA! Hvernig má það vera að vitlaus auglýsing hafi "óvart" verið birt?
Er Jóhanna ennþá með vinnu í fjölmiðlum?
Ég hvet ykkur til að skoða þetta hér. Þetta er hrikalegt.

Kommúnan

Fór í leikhús í gærkvöldi á Kommúnuna. Nú veit ég ekki hvað ég á að nota mikið af dramatískum lýsingarorðum til að koma meiningu minni á framfæri en þetta var alveg meiriháttar leiksýning. Ég held bara sú alskemmtilegasta sem ég hef nokkurn tíma farið á. Handritið, leikurinn, sviðsmyndin og lögin, my lord. Bara brilliant.
Ég er alveg hryllilega hress eftir gærkvöldið.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Af góðum gildum

Mig langar alveg sjúklega mikið til Japans. Verða lost in translation í Tokyo og fleira smart. En stefnan er sett á Disney world í Flórída með children eftir útskrift. Ekki alveg sami klassinn yfir því en án efa mjög gaman fyrir krakkana. Og ég ætti að geta náð mér í smá tan. Sem er með því mikilvægara í heimi hér. Og til marks um það hvað ég er að innræta börnum mínum heilbrigð viðhorf þá sagði Ingvar okkur frá æfingu á leiklistarnámskeiðinu sem hann er á í Kramhúsinu þar sem þau áttu að segja eitthvað fallegt við foreldra sína, ekki um þau. Ég spurði Ingvar hikandi hvað hann hefði sagt. Jú hann hafði sagt: Mamma þú ert svo mössuð og tönuð. Ekki mjúk og blíð og segir fallegar sögur eða eldar góðan mat, nei nei. Mössuð og tönuð. Jesús minn og hvað sagði kennarinn eiginlega við því? Ekkert, hún drapst bara úr hlátri.

Af því að ég er húmorslaus trukkalessa

Þá ætla ég að óska afmælisbörnum dagsins innilega til hamingju með daginn. Það var hinn háaldraði frændi minn, Atli Örn sem kynnti mig fyrir þeim félögum. Daradada - daradada - daradandararandadandardandada.

mánudagur, mars 03, 2008

Af auglýsingum

Þoli ekki auglýsinguna um Wheetos morgunkornið og nú skal ég segja ykkur af hverju. Það er vegna þess að krakkarnir í auglýsingunni fara á fætur og bursta tennurnar ÁÐUR en þau fá sér skál af Wheetos. Nú dreg ég þá ályktun að þau fari með óburstaðar tennurnar í skólann og það finnst mér hreint og beint óþolandi tilhugsun. Jóhann Vilhjálmsson hlýtur að jáa mig í þessu máli.

Svo þoli ég það ekki að ég skuli grenja yfir SÍBS auglýsingum. Það er bara eitthvað við: SÍBS - fyrir lífið sjálft sem sigrar grenjuvörnina sem annars er frekar virk.

sunnudagur, mars 02, 2008

Af Bítlunum

Við vorum í mat hjá Þóru og Hauk um daginn. Doddi og Haukur voru eitthvað að ræða einhverja tónlistarmenn sem væri ægilega góðir og mikið að gera góða hluti um þessar mundir. Ég man ekkert hverja þeir ræddu en nokkrir voru nefndir og þá helst einhverjir ný og óþekkt nöfn sem væru að sanna sig. Þá gellur allt í einu í Ingvari sem stóð og úðaði í sig hreindýrapaté: Já og svo eru Bítlarnir líka góðir. Doddi varð eitthvað hvumsa og spurði hvað það kæmi málinu við. Þá segir Ingvar: Ég hélt að við værum að ræða góðar hljómsveitir. Bítlarnir eru góð hljómsveit.